Fimm innbrot tilkynnt til lögreglu

Lögreglustöð eitt á Hverfisgötu.
Lögreglustöð eitt á Hverfisgötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um fimm innbrot til lögreglunnar í dag, þar af þrjú í heimahús. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fjórar tilkynningar bárust til lögreglustöðvar eitt um innbrot en lögreglustöð eitt sinnir útköllum í Miðborg, Vesturbæ, Hlíðum, Háaleiti og á Seltjarnarnesi.

Tvö tilkynntra innbrota voru í heimahús og hin tvö í fyrirtækjahúsnæði. Þá var einnig tilkynnt um eld í sláttuvél í hverfi 108.

Jafnframt var tilkynnt um innbrot í heimahús í Hafnarfirði, en lögreglustöð tvö sinnir Hafnarfirði og Garðabæ.

Lögreglustöð fjögur sér um norðausturhluta umdæmisins, það er Árbæ, Grafarvog, Grafarholt, Norðlingaholt, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp og Kjalarnes.

Þar var tilkynnt um líkamsárás í Árbæ og einnig um skemmdir á bifreið í Grafarvogi. Skorið var á hjólbarða bifreiðarinnar.

Af lögreglustöð þrjú, sem sinnir útköllum í Kópavogi og Breiðholti, þótti „ekkert fréttnæmt“ eftir því er kemur fram í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert