Brisbane gestgjafi Ólympíuleikanna 2032

Thomas Bach forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar staðfestir valið á Brisbane 2032.
Thomas Bach forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar staðfestir valið á Brisbane 2032. AFP

Áströlsku borginni Brisbane, höfuðborg Queensland-fylkis, var í dag úthlutað gestgjafahlutverkinu á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra árið 2032.

Alþjóða ólympíunefndin tilkynnti þetta eftir fund sinn í Tókýó í dag en Brisbane hafði snemma á þessu ári verið sett efst á lista yfir líklegustu borgir til að hreppa hnossið.

Þetta verður í þriðja sinn sem Ólympíuleikarnir fara fram í Ástralíu en áður voru þeir haldnir í Melbourne árið 1956 þegar Vilhjálmur Einarsson fékk silfurverðlaun í þrístökki og komst fyrstur Íslendinga á verðlaunapall á Ólympíuleikum, og síðan í Sydney árið 2000 þegar Vala Flosadóttir fékk bronsverðlaunin í stangarstökki.

Brisbane hefur einu sinni áður sótt um að halda Ólympíuleikana. Borgin freistaði þess að fá að halda þá árið 1992 en þá varð Barcelona fyrir valinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert