Hurfu „augljóslega af mannavöldum“

Simbi týndist 12. febrúar en kom skyndilega heim 1. mars, …
Simbi týndist 12. febrúar en kom skyndilega heim 1. mars, daginn eftir að annar köttur fannst með ólina hans í Hamraborg. Ljósmynd/Aðsend

Sunneva Tómasdóttir, íbúi í miðbæ Reykjavíkur, lenti í því undarlega atviki á dögunum að hún fékk símtal frá hjónum í Hamraborg sem töldu sig hafa fundið kött hennar, sem hafði verið týndur um þriggja vikna skeið.

Hún fór á staðinn að vitja þess sem hún hélt að væri kötturinn sinn, Simbi. Þegar hún mætti var þar fyrir köttur sem var langt frá því að vera Simbi en af einhverjum ástæðum bar hann ólina hans. 

Sunneva segir í samtali við mbl.is að hún hafi ekki hugmynd um hvernig ólin hans Simba rataði á háls hins kattarins, sem heitir vel að merkja Elvis og var einnig týndur eigendum sínum.

Þetta er dularfullt mál. Það er alveg ljóst að ólin á hálsi Elviss var ólin hans Simba. Það liggur einnig fyrir að þeir týndust báðir 12. febrúar og loks gerðist það að daginn eftir að Sunneva var boðuð að vitja Elviss og fann í kjölfar raunverulegan eiganda hans birtist Simbi á heimili hennar.

Böðvar Reynisson tónlistarmaður, eigandi Elviss, segir að kettirnir hafi ekki horfið fyrir tilviljun.

Elvis, sem bar ól Simba, þegar hann fannst í Hamraborg …
Elvis, sem bar ól Simba, þegar hann fannst í Hamraborg í lok febrúar. Ljósmynd/Böddi Reynis

Unglingar að skipta á ólum?

„Þetta er skrýtið mál,“ eins og Sunneva segir. Simbi kom heim 28. febrúar svolítið horaður en að öðru leyti í góðu standi. Það eina sem Sunnevu dettur í hug sem skýring á þessu máli er að unglingar hafi hugsanlega tekið upp á því að skipta um ólar á köttunum. En það er bara getgáta eins og hver önnur. 

„Það er ekki gaman að einhver sé að rugla svona í köttunum,“ segir Sunneva.

Augljóslega af mannavöldum

Böðvar Reynisson segir að í ljósi þess að báðir kettirnir hafi horfið 12. febrúar megi álykta að málin tengist.

„Þetta gerist augljóslega af mannavöldum. Þeir skiptast ekki á ólum og hverfa sama daginn; það er einhver sem er með eitthvað skrýtið í pokahorninu hérna. Og það er alveg ótrúlegt hverju fólk tekur upp á,“ segir Böðvar.

Ekki er einsdæmi að kettir hverfi með skrýtnum hætti þessa dagana, segir Böðvar. Ljóst er að leiðir Simba og Elviss hafa legið saman á einhverjum tímapunkti.

Hér segir tónlistarmaðurinn frá því að Elvis sé kominn heim:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert