Næstmesti fjöldi umsókna í sögu skólans

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is

Rétt tæplega 10 þúsund umsóknir í grunn- og framhaldsnám bárust Háskóla Íslands fyrir komandi skólaár. Er þetta næstmesti fjöldi umsókna að námi við skólann frá upphafi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá skólanum.

Fækkun frá því í fyrra

Umsóknirnar eru um 15% færri í ár en í fyrra. En síðasta ár var algjört metár er varðar umsóknir að námi við skólann. Þrátt fyrir að heimsfaraldur hafi geisað í rúmt ár, þá virðist hann ekki hafa tiltöluleg áhrif á vilja erlendra nemenda til að stunda nám við skólann. En umsóknum erlendra nemenda fjölgar um rúm 15% og eru þær um 1.500 talsins.

Einnig kemur fram í tilkynningunni að vegna heimsfaraldursins ákváðu háskólar landsins í samstarfi við menntamálayfirvöld að bregðast við auknu atvinnuleysi með því að opna dyr sínar og mennta fólk til nýrra áskorana. Metfjöldi var því í umsóknum í fyrra.

Alls bárust skólanum 5.750 umsóknir um grunnám sem er um 15% minna en í fyrra. Borið saman við árið 2019 er um að ræða 3% aukningu. Einnig bárust um 4.070 umsóknir í meistara- og viðbótarnám sem er 15% fækkun miðað við í fyrra, en um 20% aukning frá árinu 2019.

Munu sitja eftir með sárt ennið

Undanfarin ár hefur verið vaxandi áhugi á námi á menntavísindasviði og voru umsóknir í grunnám á sviðinu í heildina tæplega 860. Auk þess bárust rúmlega 900 umsóknir í meistaranám á sviðinu.

Flestar umsóknir í grunnám bárust til heilbrigðisvísindasviðs, en þær eru rúmlega 1.750. Af þeim eru 415 umsækjendur sem hyggjast þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði síðar í vikunni. 60 nemendur verða teknir inn í læknisfræðinám og 35 í sjúkraþjálfun, því liggur fyrir að töluverður fjöldi mun sitja eftir með sárt ennið. Þeim nemendum stendur þó til boða að skrá sig í aðrar deildir innan skólans.

Flestar umsóknir um meistaranám bárust félagsvísindasviði eða tæplega 1.350.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka