Þrjú lið ósigruð í Laugardalnum

Leikmenn EDward Gaming stilltu sér upp með bikarnum í gær. …
Leikmenn EDward Gaming stilltu sér upp með bikarnum í gær. EDward Gaming er eitt þriggja liða sem ekki hefur tapað leik í riðlakeppninni til þessa. Ljósmynd/Riot Games

Riðlakeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends sem nú fer fram í Laugardalshöll er hálfnuð. Sextán bestu lið heims keppa á heimsmeistaramótinu og er ekki aðeins keppt um heiðurinn, en verðlaunafé keppninnar hljóðar uppá tæpar 300 milljónir íslenskra króna.

Liðin sextán keppa í fjórum riðlum þar sem öll lið mætast tvisvar. Riðlakeppnin er nú hálfnuð sem þýðir að öll lið hafa mæst einu sinni innan hvers riðils. Frí verður frá keppni á morgun, fimmtudag, en hefst keppni aftur á föstudag þegar síðari umferð riðlakeppninnar hefst.

Aðeins þrjú lið hafa farið taplaus í gegnum fyrstu umferðina, en það eru liðin DWG Kia, EDward Gaming og Royal Never Give Up. Einhver lið hafa ekki enn náð sigri, en öll lið eiga enn möguleika leiki þau vel í seinni umferðinni. 

Efstu tvö lið hvers riðils eftir síðari umferðina tryggja sér sæti í úrslitakeppni mótsins sem hefst 22. október næstkomandi. Það er því mikið undir og þau lið sem ekki hafa náð sér á strik þurfa að gera það núna vilji þau eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

A-riðill

Auðvelt hjá FunPlus Phoenix 

FunPlus Phoenix og Rogue mættust í fyrri leik dagsins í A-riðli. Bæði lið höfðu fyrir leikinn sigrað einn leik og tapað einum í riðlakeppninni, svo von var á spennandi leik.

Leikurinn var frekar einhliða í garð FunPlus Phoenix og sigruðu þeir örugglega. FunPlus Phoenix hafa því unnið tvo leiki af þrem spiluðum, en Rogue aðeins unnið einn. Liðin sitja í öðru og þriðja sæti A-riðils eftir leiki dagsins.

DWG Kia halda áfram að vinna

Seinni leikur A-riðl í dag var leikur DWG Kia og Cloud9. DWG Kia höfðu unnið alla sína leiki til þessa, en Cloud9 höfðu enn ekki náð að vinna leik. 

Tölfræðin breyttist ekki er DWG Kia unnu Cloud9 í óspennandi leik. DWG Kia sitja því einir í toppsæti A-riðils með þrjá sigra í þremur leikjum. DWG Kia eru taldir sigurstranglegastir í mótinu og líklegastir til að fara alla leið og tryggja sér heimsmeistaratitilinn.

Staðan í A-riðli eftir fyrstu umferð.
Staðan í A-riðli eftir fyrstu umferð. Skjáskot/LoLesports

B-riðill

EDward Gaming spiluðu vel

EDWard Gaming og DetonatioN FocusMe mættust í fyrri leik B-riðils í dag. EDward Gaming höfðu ekki tapað leik á mótinu fyrir leik dagsins, en DetonatioN FocusMe sátu á botni riðlsins eftir að hafa tapað öllum sínum leikjum. 

Engin breyting var þar á er EDWard Gaming unnu DetonatioN FocusMe í dag. EDward Gaming sitja einir á toppi B-riðils með þrjá sigra í þremur leikjum. Útlitið er ekki gott fyrir DetonatioN FocusMe sem sitja á botni riðlsins með enga sigra.

100Thieves náðu sér ekki á strik

Síðari leikur dagsins í B-riðli var leikur 100 Thieves og T1. Fyrir leikinn voru bæði lið jöfn í B-riðli með einn sigur og eitt tap. Liðin höfðu því tækifæri á því að koma sér í annað sæti riðilsins með sigri.

Segja má að 100Thieves hafi ekki mætt til leiks, en yfirburðarsigur T1 er staðreynd. 100Thieves komu sér aldrei á strik í leiknum og nýttu T1 sér það og tóku frammúr mjög snemma leiks, en leikurinn varð aldrei spennandi. T1 sitja nú í öðru sæti B-riðils, en 100Thieves í því þriðja.

Staðan í B-riðli eftir fyrstu umferð.
Staðan í B-riðli eftir fyrstu umferð. Skjáskot/LoLesports

C-riðill

Hanwha Life Esports gerðu Royal Never Give Up erfitt fyrir

Royal Never Give Up og Hanwha Life Esports mættust í fyrri leik dagsins í C-riðli. Hanwha Life Esports höfðu unnið einn leik og tapað einum fyrir leik dagsins, en Royal Never Give Up höfðu unnið báða sína leiki.

Leikurinn var spennandi og bæði lið börðust hetjulega og endaði leikurinn með sigri Royal Never Give Up. Hanwha Life Esports sýndu styrkleika er þeir stóðu í liði Royal Never Give Up, sem er spáð góðu gengi í mótinu. Royal Never Give Up sitja á toppi C-riðils eftir úrslit dagsins, en Hanwha Life Esports eru í þriðja sæti riðilsins.

Fnatic enn án sigurs

PSG Talon og Fnatic mættust í seinni leik C-riðils í dag. PSG Talon höfðu fyrir leikinn unnið einn leik og tapað einum, en Fnatic hefur átt í erfiðleikum það sem af er móts og ekki unnið einn leik.

Fnatic missti út byrjunarliðsmann fyrir mótið hefur það haft áhrif á leik liðsins. Þeir mættu þó tilbúnir í slaginn á móti PSG Talon, en leikurinn var spennandi og jafn og lauk með sigri PSG Talon. PSG Talon sitja taplausir á toppi C-riðils en Fnatic sigurlausir á botni riðlsins. Ljóst er að Fnatic þarf að setja í fimmta gír vilji þeir eiga möguleika á því að leika í úrslitakeppni mótsins.

Staðan í C-riðli eftir fyrstu umferð.
Staðan í C-riðli eftir fyrstu umferð. Skjáskot/LoLesports

D-riðill

LNG Esports völtuðu yfir MAD Lions

Fyrri leikur dagsins í D-riðli var leikur MAD Lions og LNG Esports. Bæði lið höfðu unnið einn leik og tapað einum fyrir leik dagsins, og ljóst að sigur í leiknum hafði mikla þýðingu. Þess má geta að D-riðill er sá riðill sem jafnastur er, en öll lið hafa tapað og unnið leik í riðlinum.

Má segja að leikurinn hafi verið minnst spennandi leikur dagsins, en LNG Esports unnu leikinn með yfirburðum og var leikurinn ekki langur. LNG Esports sýndu styrkleika og voru fljótir að komast yfir og spiluðu yfirvegaðan leik sem tryggði þeim sigur.

Gen.G styrktu stöðu sína í riðlinum

Síðari leikur dagsins í D-riðli var leikur Gen.G og Team Liquid. Bæði lið höfðu fyrir leikinn unnið einn leik og tapað einum. Allt getur gerst í D-riðli, þar sem öll liðin virðast jöfn samkvæmt stöðutöflu riðilsins.

Var leikurinn meira spennandi en fyrri leikur dagsins í D-riðli. Gen.G unnu Team Liquid í skemmtilegum leik, og styrktu þannig stöðu sína í riðlinum. Gen.G og LNG Esports sitja eftir leiki dagsins í efstu tveimur sætum D-riðils með tvo sigra og eitt tap, en Team Liquid og MAD Lions eru saman í fallsætum. 

Stðan í D-riðli eftir fyrstu umferð.
Stðan í D-riðli eftir fyrstu umferð. Skjáskot/LoLesports
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert