Belgar einblína á Arnar

Arnar Þór Viðarsson er þekkt stærð í Belgíu.
Arnar Þór Viðarsson er þekkt stærð í Belgíu. Ljósmynd/Lokeren

Það er mikið fjallað um Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari U21-árs landsliðs Íslands í knattspyrnu, í belgískum fjölmiðlum í dag.

Arnar Þór mun stýra íslenska liðinu í kvöld gegn Belgum á Laugardalsvelli í Þjóðadeild UEFA ásamt Davíð Snorra Jónassyni, þjálfari U17 ára landsliðs karla, og Þórði Þórðarsyni, þjálfara U19 ára landsliðs kvenna. 

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfara A-landsliðs karla, verða fjarri góðu gamni þar sem þeir eru báðir í sóttkví vegna kórónuveirunnar en þeir fá þó að fylgjast með leiknum úr glerbúri á Laugardalsvelli þar sem þeir geta komið tilmælum sínum til þjálfarateymisins.

Belgískar fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið en Arnar Þór er þekktur knattspyrnumaður og þjálfari í Belgíu eftir að hafa leikið með Lokeren í níu ár og svo Cercle Brügge í sex ár en hann lék alls 381 leik í belgísku A-deildinni á farsælum ferli þar.

Hann varð svo aðstoðarþjálfari Cercle Brügge þegar hann lagði skóna á hilluna árið 2014 og var gerður að aðalþjálfara liðsins stuttu síðar. Arnar lét af störfum hjá Cercle Brügge árið 2015.

Þá gekk hann til liðs við Lokeren þar sem hann var aðstoðarþjálfari. Þeirri stöðu gegndi hann í þrjú ár eða til ársins 2018 þegar hann var ráðinn tímabundinn þjálfari liðsins. 

Hann var svo á ný aðstoðarþjálfari Lokeren frá 2018 til 2019, við hlið Rúnars Kristinssonar, áður en hann var ráðinn sem yfirmaður íþróttamála hjá KSÍ og aðstoðarþjálfari U21-árs landsliðsins.

Þá er Arnar, sem er 42 ára gamall, búsettur í Belgíu en eiginkona hans er belgísk. Arnar lék sinn fyrsta landsleik árið 1998 en hann á að baki 52 A-landsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert