Gekk inn á veitingastað og skaut á starfsmann

Árásarmaðurinn gekk hreint til verks svo sem sjá mátti á …
Árásarmaðurinn gekk hreint til verks svo sem sjá mátti á upptöku úr öryggismyndavél, gekk inn á staðinn og skaut á starfsmann þar. Mynd/Lögreglan í Ósló

Lögreglan í Ósló í Noregi leitar manns sem eftirlýstur er fyrir tilraun til manndráps á veitingastað skammt frá BI-viðskiptaháskólanum í Nydalen þar í borginni í gærkvöldi, mánudagskvöld, en sá eftirlýsti gekk þá inn á staðinn, dró upp skammbyssu og skaut einu skoti að starfsmanni á staðnum með látbragði sem að sögn vitna gaf til kynna að atlagan hefði með vitund og vilja beinst að þessum tiltekna starfsmanni.

Sá slapp með skrekkinn og forðaði árásarmaðurinn sér á hlaupum. Var hans leitað í alla nótt að sögn Line Presthus, ákæruvaldsfulltrúa Óslóarlögreglunnar, og enn er leitað því hvorki hefur fundist tangur né tetur af manninum.

„Við lítum málið mjög alvarlegum augum og neytum nú allra úrræða sem okkur eru tæk,“ sagði Presthus við norska ríkisútvarpið NRK í dag en á Twitter skrifaði lögreglan að þarna hefði árásarmaðurinn gengið hreint til verks og að einu skotmarki, ekki hefði verið ástæða til að ætla að aðrir viðstaddir hefðu verið í hættu staddir.

Lögregla birti mynd

Toni Barstad varðstjóri sagði við dagblaðið VG í gærkvöldi að málið væri rannsakað sem tilraun til manndráps auk þess sem eðlilegt væri að lögregla hefði nýlegt skotárásarmál við Þjóðleikhúsið til hliðsjónar sem mbl.is hefur fjallað um undanfarið þar sem áttust við liðsmenn vélhjólaklúbbsins Satudarah og norsk-pakistanska glæpagengisins Young Guns.

„Eins og staðan er núna er þetta samt bara einangrað atvik og við höldum öllum möguleikum opnum,“ segir Barstad, „þetta þarf að upplýsa, eins og öll önnur skotárásarmál í Ósló, við viljum þetta ekki í bænum okkar.“

Fjöldi vegfarenda hringdi í neyðarnúmer lögreglu um klukkan 21:40 í gærkvöldi, 20:40 að íslenskum tíma, og tilkynnti um árásina á veitingastaðnum sem raunar er staðsettur mitt á milli bygginga öryggislögreglunnar PST og dómsmálaráðuneytisins. Hefur lögregla birt myndina, sem fylgir þessari frétt, í norskum fjölmiðlum í dag en hún er úr öryggismyndavél á staðnum.

Þykir lögreglu mesta mildi að sá sem árásin beindist að hafi sloppið ómeiddur. „Sem betur fer hlaut hann ekki líkamlegan skaða en það kæmi mér ekki á óvart þótt hann burðaðist með þennan atburð það sem hann á eftir ólifað,“ segir Barstad varðstjóri við NRK.

NRK

VG

Dagbladet

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert