Enski boltinn

Skilja ekki hvernig Fabinho slapp við rautt: „Skelfileg tækling“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabinho merkti ökklann á Lewis Ferguson ansi hressilega.
Fabinho merkti ökklann á Lewis Ferguson ansi hressilega. getty/Andrew Powell

Fabinho þótti heppinn að sleppa við rautt spjald í leik Brighton og Liverpool í ensku bikarkeppninni í gær.

Undir lok leiksins tæklaði Fabinho Lewis Ferguson, ungan framherja Brighton, illa í ökklann með þeim afleiðingum að hann þurfti að fara meiddur af velli. Fabinho fékk hins vegar bara gult spjald og gat haldið leik áfram. Skömmu eftir brotið skoraði Kaoru Mitoma sigurmark Brighton.

Glenn Murray, sem var sérfræðingur iTV um leikinn, fannst óskiljanlegt hvernig Fabinho slapp við að fá rauða spjaldið fyrir brotið á Ferguson.

„Ég skil ekki hvernig VAR-dómarinn getur sagt að þetta sé ekki rautt. Þetta er hræðileg tækling,“ sagði Murray.

„Leikmaðurinn veit að þetta er rautt, hann bíður eftir því að vera rekinn út af en sleppur einhverra hluta vegna. Þarna er ég að tala sem atvinnumaður en ekki sem fyrrverandi leikmaður Brighton.“

Karen Cairney tók í sama streng og Murray. „Stundum horfa dómarar bara á leikmanninn sem braut af sér og þú veist að þetta ætti að vera rautt. Hann vissi það. Hann var of seinn og þetta var skelfileg tækling og hann veit að hann hefði átt að vera rekinn af velli.“

Liverpool náði forystunni í leiknum í gær með marki Harveys Elliott. Lewis Dunk, fyrirliði Brighton, jafnaði og Mitoma skoraði svo sigurmark Mávanna í uppbótartíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×