Vieira rekinn frá Palace

Patrick Vieira hefur verið látinn taka pokann sinn.
Patrick Vieira hefur verið látinn taka pokann sinn. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnufélagið Crystal Palace hefur rekið Patrick Vieira úr starfi knattspyrnustjóra karlaliðsins vegna afleits gengis þess á árinu.

Palace hefur ekki unnið leik í 12 leikjum í röð og tapað þremur deildarleikjum í röð.

Liðið vann síðast leik á gamlársdag og hefur því ekki enn unnið sigur á árinu 2023.

Palace hefur því sogast niður í harða fallbaráttu þar sem liðið er í 12. sæti í deildinni en þó aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Vieira tók við stjórnartaumunum hjá Palace sumarið 2021 og vakti liðið þá athygli fyrir skemmtilegan sóknarbolta á hans fyrsta tímabili, þar sem það endaði í 12. sæti.

Á yfirstandandi tímabili hefur Palace hins vegar átt í miklum erfiðleikum fyrir framan markið og aðeins skorað 21 mark í 27 deildarleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert