Morðhótun í garð mótherja

Leonardo Bonucci var valinn í úrvalslið EM eftir sigur Ítalíu …
Leonardo Bonucci var valinn í úrvalslið EM eftir sigur Ítalíu í sumar. AFP

Leonardo Bonucci, varnarmaður Juventus og ítölsku Evrópumeistaranna í knattspyrnu, er í slæmum málum eftir atvik eftir leik liðsins gegn Inter Mílanó í gærkvöld.

Liðin mættust í ítölsku meistarakeppninni og í uppbótartíma framlengingar þegar staðan var 1:1 stóð til að skipta Bonucci inn á sem varamanni svo hann gæti  tekið þátt í vítaspyrnukeppninni.

Skiptingin náði ekki að fara fram og Alexis Sánchez skoraði sigumark Inter í blálokin.

Cristiano Mozzilo, stjórnarmaður Inter, var niðri við hliðarlínuna og fagnaði ákaft. Bonucci fokreiddist, rauk að honum, og samkvæmt Il Tempo sagði hann við Mozzilo: „Hættu að fagna svona beint í andlitið á mér, hver fjandinn gengur að þér. Ég skal drepa þig."

Viðbúið er að Bonucci, sem er 34 ára gamall og hefur leikið 114 landsleiki fyrir Ítalíu, fái refsingu fyrir framkomuna.

Uppfært:
Bonucci hefur verið sektaður um 10 þúsund evrur fyrir framkomuna en sleppur við leikbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert