Keppir í fótbolta og rafíþróttum með sama félagi

Lena Güldenpfennig er 20 ára þýskur framherji sem spilar með …
Lena Güldenpfennig er 20 ára þýskur framherji sem spilar með fótboltaliði RB Leipzig, en hún spilar einnig FIFA með rafíþróttaliði félagsins. Ljósmynd/RBLZ Gaming

Lena Güldenpfennig er 20 ára þýskur framherji sem spilar með fótboltaliði RB Leipzig. Það sem gerir hana frábrugðna öðrum fótboltaleikmönnum félagsins er að hún spilar einnig rafíþróttir fyrir félagið. 

Eftir að hafa spilað mikið FIFA 21 í heimsfaraldri tók Lena þátt í stóru þýsku móti í leiknum sem hún sigraði. Fangaði hún þannig athygli margra og hafði rafíþróttadeild RB Leipzig, RBLZ Gaming, samband við hana og buðu henni að vera hluti af FIFA liði sínu. Lena tók boðinu og varð í kjölfarið fyrsta konan til að spila í þýsku deildinni Virtual Bundesliga. 

Skipuleggur sig vel

Lena skipuleggur tímann sinn vel er hún leggur allan sinn kraft í báðar íþróttir. Hún hefur daginn sinn á því að læra, en hún er í skóla samhliða báðum íþróttum, og fer síðan á fótboltaæfingu og svo rafíþróttaæfingu.

Hún segir í samtali við CNN að hún njóti þess að hafa skipulagða rútínu og henni finnist gaman að gera allt sem hún gerir og finni þessvegna ekki fyrir álaginu.

Margir fótboltaleikmenn snúa til tölvuleikja eins og FIFA til að slaka á, en Lena segir að henni finnist FIFA meira stressandi heldur en venjulegur fótbolti. Hún bendir á að það eru mörg atriði sem hún hefur lært í FIFA sem hún hefur notað til að verða betri í venjulegum fótbolta.

Hvetur konur áfram

Fáar konur keppa í rafíþróttinni FIFA í Þýskalandi, en meðal 107 keppenda í Virtual Bundesliga eru tvær konur. 

„Ég vil hvetja konur til að sýna hugrekki og hafa trú á sjálfum sér. Ekki fela ykkur og ekki vera hræddar við að það eru fleiri karkyns spilarar,“ segir Lena við CNN er hún bendir á hversu fáar konur eru að keppa í FIFA leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert