Kókaínsala í stærsta kirkjugarði Rómar

Kókaín var aðalsöluvara gengisins.
Kókaín var aðalsöluvara gengisins. Af vefnum drugabuse.

Lögregluyfirvöld á Ítalíu hafa stöðvað umfangsmikla kókaínsölu glæpagengis í Róm. Salan fór að mestu fram við Flaminio-kirkjugarðinn í Róm, en hann er sá stærsti í borginni.

„Kaupendur nálguðust sölumennina, sem þóttust vera blómasalar og greiddu þeim fyrir efnin án þess að þurfa að stíga út úr bílnum,“ er haft eftir lögregluyfirvöldum þar ytra.

Fengu aðstoð spilltra lögregluþjóna

Í heildina voru 22 rannsakaðir af lögreglu í tengslum við málið og að endingu handteknir, en talið er að lágmarki þrír menn innan lögreglunnar hafi gerst sekir um spillingu og unnið markvisst með glæpagenginu.

Ekki liggur fyrir hvort lögreglumennirnir sem sakaðir eru um að hafa unnið með genginu séu meðal þeirra sem voru handteknir í tengslum við málið.

Blómasalar í hjáverkum

Fíkniefnasalarnir geymdu efnin í blómapottum og nærliggjandi runnum við kirkjugarðinn yfir daginn. Yfir kvöld og fram eftir nóttu færðu þeir svo starfsemina yfir á lestarstöð í grenndinni og störfuðu þaðan. Samkvæmt lögreglu græddu fíkniefnasalarnir allt að 20.000 evrur á dag eða tæplega 3 milljónir króna.

Greinilegt að nýta má blómapotta til ýmissa verka.
Greinilegt að nýta má blómapotta til ýmissa verka. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert