„Myrkur kafli í sögu portúgalsks fótbolta“

Markvörðurinn Joao Monteiro, sem lék sem miðjumaður með Belenenses í …
Markvörðurinn Joao Monteiro, sem lék sem miðjumaður með Belenenses í leik gegn Benfica í gær, situr á vellinum eftir að hafa meiðst í upphafi síðari hálfleiks. Dómari leiksins flautaði leikinn af skömmu síðar. AFP

Leikur Belenenses og Benfica í portúgölsku 1. deildinni í knattspyrnu karla var flautaður af snemma í síðari hálfleik þegar Benfica leiddi með sjö mörkum gegn engu.

Það að leikurinn hafi fengið að fara fram hefur vakið mikla furðu þar sem Belenenses gat einungis stillt upp níu leikmönnum í byrjun leiks. Þar af voru tveir markverðir leikfærir og byrjaði annar þeirra, Joao Monteiro, því á miðjunni.

Níu leikmenn Belenenses stilla sér upp fyrir leikinn í gærkvöldi.
Níu leikmenn Belenenses stilla sér upp fyrir leikinn í gærkvöldi. AFP

Belenenses varð afar illa fyrir barðinu á kórónuveirunni þar sem alls 17 leikmenn liðsins voru fjarverandi vegna hennar. Aðeins níu leikmenn voru á skýrslu og því vitanlega enginn varamaður.

Staðan var 7:0, Benfica í vil, í hálfleik, og eftir langt hlé mættu aðeins sjö leikmenn Belenenses til leiks í síðari hálfleik þar sem tveir gátu ekki haldið áfram vegna meiðsla.

Þegar einn leikmaður Belenenses til viðbótar, áðurnefndur Joao Monteiro, meiddist strax í upphafi síðari hálfleiks átti dómari leiksins ekki annarra kosta völ en að flauta leikinn af þar sem leikmenn á vellinum mega ekki vera færri en sjö.

Rui Costa, forseti Benfica, var ómyrkur í máli í samtali við portúgalska fjölmiðla eftir leik og sagði liðið hafa verið þvingað til að spila hann.

Hann sagði að hvorki forstöðumenn efstu deildar Portúgals né heilbrigðisyfirvöld hafi beitt valdi sínu til þess að fresta leiknum.

„Mér þykir það sem gerðist í dag afar leitt, þetta er myrkur kafli í sögu portúgalsks fótbolta og fyrir þjóðina sjálfa,“ sagði Rui Costa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert