Rafmagnslaust eftir óhapp á Snorrabraut

Framkvæmdir standa yfir við Snorrabraut. Unnið er að því að …
Framkvæmdir standa yfir við Snorrabraut. Unnið er að því að koma rafmagni aftur á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafmagn fór skyndilega af í Skerjafirði og á Hlíðarenda upp að Egilsgötu í miðbænum klukkan 9.46 í dag. 

Skurðgrafa klippti óvart á vír við framkvæmdir á Snorrabraut og svo fór sem fór. 

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, segir að unnið sé að viðgerðum. 

„Við búumst ekki við að það taki langan tíma, þar sem við vitum nákvæmlega hvar þetta er. Það er bara verið að laga þetta eins og stendur,“ segir hún við mbl.is. 

Blaðamaður mbl.is var staddur í Domus Medica þar sem öll ljós slokknuðu rétt fyrir klukkan 10 í morgun.

Segja má að öngþveiti hafi gripið um sig þegar rafmagnsleysið skall á. Öll greiðslukerfi lágu niðri, sömuleiðis tölvur og símar. Sérstaklega hafi börn á svæðinu orðið hrædd. Starfsmönnum Domus Medica lá einnig á að kanna hvort einhverjir sætu fastir í lyftu hússins en af lýsingum blaðamanns að dæma reyndist svo ekki vera. 

Á Domus Medica er boðið upp á alls kyns læknisþjónustu, þar á meðal röntgenmyndatökur, sem óvíst er hvort hafi eitthvað farið úr böndunum við rafmagnsleysið. Eins og gefur að skilja báru símtöl blaðamanns á skiptiborð Domus Medica ekki árangur.

Domus Medica við Egilsgötu.
Domus Medica við Egilsgötu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert