Árásarmaðurinn í Kaupmannahöfn ófundinn

Mynd af árásarmanninum sem lögreglan í Kaupmannahöfn birti á Twitter.
Mynd af árásarmanninum sem lögreglan í Kaupmannahöfn birti á Twitter.

Lögreglan í Kaupmannahöfn leitar árásarmanns eftir að hann skaut annan mann á kaffihúsi í Friðriksbergi í gærkvöldi. Maðurinn sem varð fyrir skotinu liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi. Um er að ræða þriðju skotárásina í Kaupmannahöfn á jafn mörgum dögum.

Danska ríkisútvarpið greinir frá.

Lögreglunni barst tilkynning klukkan 21:38 að staðartíma um að skotum hefði verið hleypt af á kaffihúsi þar sem fólk sat við vatnspípureykingar. Kaffihúsið stendur við Åboulevarden götu sem skilur Friðriksberg frá Norðurbrú.

Fjórir til sex voru á kaffihúsinu þegar árásin var framin. 

Árásarmaðurinn sem leitað er að er ungur. Hann er fullskeggjaður, svarthærður og um 175 sentímetra hár. Hann var klæddur í dökk föt, svartan jakka, svartar eða bláar buxur, svarta skó, svarta hanska og svarta grímu.

Eftir að árásarmaðurinn hafði hleypt af skoti hljóp hann af vettvangi og í átt að miðbæ Kaupmannahafnar. Hann stoppaði í versluninni Netto og náðist hann þar á eftirlitsmyndavél. Myndina úr henni má sjá hér að ofan.

Blóðugir dagar í Kaupmannahöfn

Fleiri skotárásir hafa verið framkvæmdar í Kaupmannahöfn að undanförnu.

Síðdegis á fimmtudag lést 27 ára karlmaður eftir skothríð á Norðurbrúargötu. Tveir karlmenn hafa verið ákærðir í því máli en þeir neita sök. Hinn látni er sagður hafa tengst glæpagenginu NNV sem að sögn lögreglu gæti átt einhvern hlut að máli. 

Á föstudag lést svo 17 ára drengur eftir skothríð á hárgreiðslustofu í Islev. Að sögn lögreglu var drengurinn búlgarskur ríkisborgari. 15 ára piltur og 28 ára karlmaður særðust í árásinni. Grunur leikur á að tveir gerendur hafi verið að verki en þeir hafa ekki verið handteknir.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert