Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Höttur 89-96 | Enginn skjálfti í Hattarmönnum í Grindavík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Höttur gerði sér lítið fyrir og sótti tvö stig til Grindavíkur í kvöld.
Höttur gerði sér lítið fyrir og sótti tvö stig til Grindavíkur í kvöld. Höttur

Höttur vann góðan útisigur á Grindvíkingum í Domino´s deild karla í kvöld. Lokatölur 96-89 þar sem Höttur sigldi fram úr í síðari hálfleiknum.

Fjörið í kvöld byrjaði mínútu áður en flautað var til leiks. Þá reið yfir jarðskjálfti sem átti upptök sín rétt við Grindavík og hristi heldur betur upp í mönnum. Áhorfendur og leikmönnum krossbrá enda höggið það mikið að sprunga myndaðist í einum vegg í íþróttasalnum.

Maður hefði haldið að heimamenn væru vanari skjálftum en Egilsstaðabúar en svo virtist ekki vera. Gestirnir byrjuðu af miklum krafti og leiddu eftir fyrsta leikhlutann.

Varnarlega voru Grindvíkingar í vandræðum og Hattarmenn áttu auðvelt með að setja stig á töfluna.

Grindvíkingar rönkuðu aðeins við sér í öðrum leikhluta og náðu frumkvæðinu. Dagur Kár Jónsson og Marshall Nelson fóru fyrir sínum mönnum sóknarlega og þá sérstaklega Nelson sem hitnaði vel fyrir utan þriggja stiga línuna.

Staðan í hálfleik var 52-47 og þegar Grindvíkingar byrjuðu síðari hálfleikinn á því að auka við forskotið bjuggust flestir við að þeir myndu sigla sigrinum í höfn.

Svo varð aldeilis ekki raunin. Heimamenn voru áfram í vandræðum í vörninni og þegar Hattarmenn fóru að loka á þá í sókninni sömuleiðis lentu Suðurnesjamenn í vandræðum. Höttur saxaði á forskotið og komst svo yfir í stöðunni 67-65 þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta.

Grindvíkingar virtust stressast upp, voru klaufar í sínum sóknaraðgerðum og virtust halda að þeir gætu gert 5 stig í hverri sókn. Juan Navarro kom með góða innkomu af bekknum hjá Hetti og Matej Karlovic, sem spilaði ekkert í fyrri hálfleiknum, kom sömuleiðis sterkur inn.

Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu en gestirnir áttu alltaf svar. Skotin duttu ekki niður hjá heimamönnum og að endingu var það Höttur sem fagnaði sætum sigri, lokatölur 96-89.

Af hverju vann Höttur?

Þeir stigu upp varnarlega og byrjuðu að frákasta betur í seinni hálfleiknum. Þegar lykilmaðurinn Sigurður Þorsteinsson lenti í villuvandræðum, þá stigu aðrir upp og sýndu góða takta. Michael Mallory er síðan gulls ígildi fyrir Hött og skorar alltaf þegar á þarf að halda.

Varnarlega voru heimamenn slakir og sóknarlega voru of margir lykilmenn sem hittu ekki á sinn besta dag.

Þessir stóðu upp úr:

Michael Mallory var frábær hjá Hetti, með 22 stig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst. Hann getur gert svo mikið upp á eigin spýtur og er akkúrat maðurinn sem Höttur þarf í sínu liði.

Framlag Juan Navarro og Matej Karlovic af bekknum var sömuleiðis stórt og þá var Bryan Albert sömuleiðis góður.

Hjá Grindavík voru Dagur Kár og Marshall Nelson bestir sóknarlega.

Hvað gekk illa?

Vörn Grindavíkur var slök nær allan leikinn og þegar sóknarleikurinn fór að klikka sömuleiðis þá fóru taugarnir að segja til sín og þeir virtust ekki ráða við þá stöðu að lenda undir gegn liði sem flestir telja að þeir eigi að vinna.

Of margir lykilmenn voru fjarverandi sóknarlega og þá hljóta Grindvíkingar að gera ráð fyrir stærra framlagi frá Bandaríkjamanninum Kazembe Abif en því sem hann hefur skilað fyrstu tveimur leikjum fyrir þá gulklæddu.

Hvað gerist næst?

Grindavík heldur til Akureyrar og mætir þar Þór á sama tíma og Höttur tekur á móti stórliði Stjörnunnar á Egilsstöðum.

Daníel Guðni Guðmundsson.vísir/ernir

Daníel Guðni: Þetta var bara lélegt

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Grindavíkur var ósáttur með varnarleik sinna manna þegar þeir biðu lægri hlut gegn Hetti í Domino´s deildinni í kvöld.

„Þeir skora 96 stig á okkur, eru vel undir 50 stigum í hálfleik. Við vorum slakir þegar þeir sóttu hratt á okkur í seinni hálfleik. Við byrjuðum sterkt sóknarlega í þriðja leikhluta, keyrum sama kerfið í nokkur skipti og skoruðum alltaf. Svo kemur eitthvað fát á okkur og menn ætla að reyna að klína stigum á töfluna í staðinn fyrir að spila vörn,“ en fyrir utan slakan varnarleik urðu Grindvíkingar stressaðir í sókninni þegar þeir lentu undir.

„Við fórum yfir það í leikhléinu þegar þeir jöfnuðu að þetta gengi ekki upp. Það koma jafnmörg stig á töfluna í hvert skipti sem boltinn fer ofan í. Varnarlega er ég virkilega pirraður, þetta var bara lélegt.“

Grindvíkingar unnu góðan sigur á Val í síðustu umferð og virtust vera búnir að ná vopnum sínum eftir töp fyrir landsleikjahléið.

„Þetta var ekki frammistaða sem ég var að vonast eftir. Við vorum komnir með forskot í þriðja leikhluta og það er skíthættulegt. Þeir gengu á lagið og við vorum bara með hendur niðri og slakir.“

Sigurður Gunnar [t.v.] segir Hattarmenn stefna á úrslitakeppnina.Höttur

Sigurður Gunnar: Við ætlum í úrslitakeppni

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er reynsluboltinn í liði Hattar. Hann lenti í villuvandræðum í dag og spilaði ekki eins mikið og hann er vanur. Hann var ánægður með sína menn í kvöld.

„Ég er hrikalega ánægður, ég lenti í vandræðum en Juan Navarro kemur inn og stígur upp og stendur sig frábærlega. Við fórum að stíga þá út og fráköstuðum. Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn vel en við náðum að stoppa það og þá fór þetta að detta,“ sagði Sigurður í samtali við Vísi eftir leik.

Höttur náði frumkvæðinu um miðjan þriðja leikhluta og stemmningin var gríðarleg í liðinu þegar þeir jöfnuðu og komust svo yfir.

„Við reyndum að halda þeim fyrir framan okkur og láta þá skjóta yfir okkur. Þeir eru með hörku skyttur en það er erfitt að skjóta yfir menn allan leikinn, þú þreytist hægt og rólega. Ég held að það hafi virkað í lokin.“

Með sigrinum er Höttur farinn að nálgast úrslitakeppnissæti og Sigurður sagði enga spurningu hvert Hattarmenn væru að horfa.

„Alltaf úrslitakeppnin, við erum ekki í þessu bara til að vera með. Við ætlum í úrslitakeppni,“ sagði Sigurður kokhraustur að lokum.


Tengdar fréttir

Viðar Örn: Ég var að teikna upp kerfi og svo kemur höggið

„Ég er hrikalega stoltur af mínum mönnum að klára þetta hérna. Svekktur að hafa ekki farið með þetta í átta stigin. Ég skora bara á KKÍ að setja deildina í þrefalda umferð þannig að þetta innbyrðis dæmi hætti,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar eftir sigur hans manna í Grindavík í Domino´s deildinni í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira