Ég vil ekkert eiga þetta met

Almarr Ormarsson tekur boltann á lofti í leiknum gegn HK …
Almarr Ormarsson tekur boltann á lofti í leiknum gegn HK í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fyrirliði KA, Almarr Ormarsson, skoraði gull af marki í dag þegar KA og HK skildu jöfn í éljagangi og norðangarra á Greifavellinum á Akureyri. Leikur liðanna var fyrsti leikur dagsins í Pepsi Max-deildinni og fór hann 1:1. KA gerði sitt tíunda jafntefli í deildinni en liðið hefur unnið tvo leiki en tapað þremur. 

Þetta var draumamark hjá þér í dag Almarr. Það dugði þó aðeins til að jafna leikinn. 

„Nei því miður. Þetta var enn eitt jafnteflið og er farið að verða pínu þreytt. Það er léttir fyrir mig að hafa loks náð að skora í sumar en þetta mark hefði mátt telja meira.“ 

Þú varst nálægt því að skora í síðasta leik en Fjölnismenn náðu að bjarga á síðustu stundu. Það virðist bara vera betra fyrir þig að skjóta af löngu færi. 

„Ja, ég hefði skotið fyrr þá ef ég hefði vitað af varnarmanninum“ sagði Almarr, nokkuð vandræðalegur. „Ég hefði samt alltaf tekið þrjú stig í staðinn fyrir þetta mark.“ 

Þið lentuð snemma undir í þessum leik og voruð að þjarma að vörn HK nánast fram í uppbótatíma. Þeir voru gríðarlega þéttir og þið fenguð ekki mörg færi.  

„Þeir gerðu mjög vel og lögðust þétt til baka eftir að þeir skoruðu. Við héldum vel í boltann og vorum með fínar færslur en það var þessi síðasta sending sem klikkaði ansi oft. Þetta hefur plagað okkur töluvert í sumar. Engu að síður náum við ágætis krossum inn á milli en skallaboltarnir sem við náðum voru tiltölulega lausir og auðveldir fyrir markvörð HK. Mér fannst við nær því í dag en oftast áður að skapa þessi alvöru færi og við fengum eitt svakalega gott. Í rauninni var ég alltaf viss um að við myndum ná að skora og eftir að við jöfnuðum þá fannst mér við allt eins getað tekið öll stigin. Við vorum miklu líklegri til þess en þeir.“ 

Aðeins um veðrið. Hvernig var að spila í þessum éljagangi og kulda? 

„Síðustu umferðirnar í deildinni hafa oft verið spilaðar á þessum árstíma og maður hefur lent í einhverju svipuðu og líka mun verra veðri. Það var miklu verra fótboltaveður í Grafarvogi í síðasta leik. Við getum ekki kvartað mikið yfir þessu. Það verður fróðlegt að spila í lok október. Við eigum enn sjö leiki eftir.“ 

Nú þarf að fara að athuga með metfjölda jafntefla í efstu deild. Þið hafið gert tíu jafntefli í fimmtán leikjum eða 2/3 af leikjunum. Stefnið þið á eitthvað met á þessum vettvangi? 

„Ég hef enga hugmynd um hvert metið er og ég hef engan áhuga á að slá það. Þessi jafntefli eru smá þreytt. Ég væri til í að fara að fagna sigrum frekar. Það er gamla klisjan að við virðum stigið. Ég veit ekkert um neitt met og vonandi sláum við það ekki. Ég vil ekkert eiga þetta met“ sagði Almarr sposkur í lokin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert