Starfshópur skipaður gegn hatursorðræðu

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp gegn hatursorðræðu til að bregðast við vísbendingum um að slík orðræða fari vaxandi í íslensku samfélagi.

Starfshópurinn mun skoða hvort stjórnvöld eigi að setja fram heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu, samkvæmt tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Hópurinn mun hafa samráð við hagsmunasamtök í vinnu sinni.

„Unnið verður að því að ná fram samhæfðum aðgerðum gegn hatursorðræðu m.a. vegna  kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar með heildstæðri nálgun,“ segir í tilkynningunni.

Í starfshópnum verða fulltrúar frá dómsmálaráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Jafnréttisstofu. Þar að auki verða fulltrúar skipaðir af forsætisráðherra án tilnefninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert