„Ekki þægileg staða“

Rögnvaldur Ólafsson segir að það sé ekki þægileg staða að …
Rögnvaldur Ólafsson segir að það sé ekki þægileg staða að vera enn að greina smit utan sóttkvíar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er hægt að segja til á þessum tímapunkti um hvort slakað verði á sóttvarnareglum innanlands 15. apríl þegar núgildandi reglugerð fellur úr gildi. Þetta segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Þróun faraldursins verði að leiða það í ljós.

„Það er bara eitthvað sem verður að koma í ljós þegar nær dregur. Við sjáum það í lok vikunnar hvernig við komum undan páskunum, jafnvel á næstu tveimur vikum,“ segir Rögnvaldur. 

Síðastliðna fjóra daga hafa 16 greinst innanlands og fimm þeirra voru utan sóttkvíar. Rögnvaldur segir jákvætt að faraldurinn hafi ekki náð að breiðast meira út. „Það er samt alltaf áhyggjuefni þegar við erum að greina fólk sem er utan sóttkvíar,“ segir hann.

„Þetta er alla vega ekki þægileg staða þegar við erum enn að greina smit utan sóttkvíar. Þá er það vísbending um að það sé smit sem við erum ekki búin að finna. Það er alltaf betra þegar við erum búin að finna öll smit,“ segir Rögnvaldur. 

Hann segir að það hafi gengið upp og ofan að rekja smitin en í flestum tilvikum hafi gengið vel að finna þá sem eru í kringum viðkomandi. Verr hafi gengið að finna uppruna smitanna í einhverjum tilvikum, en raðgreining hjálpi oft mikið til því þá finnist tengingar sem ekki voru augljósar. 

Rögnvaldur hefur ekki upplýsingar um hvaða afbrigði veirunnar hefur verið að greinast undanfarna daga en hið svokallaða breska afbrigði hafi verið ríkjandi undanfarnar vikur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert