Bolsonaro útskrifaður af sjúkrahúsi

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, lauk spítalavist sinni í dag en hann hefur undanfarna fjóra daga sætt meðferð vegna þarmastíflu.

Forsetinn var upprunalega sendur á hersjúkrahús í höfuðborginni Brasilíu á miðvikudaginn var en hann hafði þá verið með hiksta í um 10 daga. Síðar á miðvikudag var hann svo færður á sjúkrahús í Sao Paulo.

„Ég þurfti að fara á sérmataræði, ég gerði bara það sem þurfti að gera. Mig langaði að fara strax á fyrsta degi, en þeir leyfðu mér það ekki. Ég vona að eftir tíu daga geti ég fengið mér rib-eye-steik,“ sagði Bolsonaro við blaðamenn í dag.

Hnífstunga árið 2018 ástæðan

Bolsonaro lýsti verkjunum þannig að sér liði eins kviknað væri í maganum. Eins og áður kom fram var orsökin þarmastífla. „Það er algengt að þetta komi fyrir menn eins og mig sem hafa þurft að fara í aðgerð vegna stunguárásar.“ Bolsonaro hefur þurft að fara í sex aðgerðir vegna hnífstungu sem hann varð fyrir í kosningabaráttu sinni árið 2018.

Bolsonaro lét þó spítalavistina ekki hindra störf sín, en hann hélt áfram að vinna á spítalanum og var virkur við að tjá sig um ýmis pólitísk málefni á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert