Fylgja „trendi“ og sogast inn í múgæsingu

Börn hafa verið að mæla sér mót og fara í …
Börn hafa verið að mæla sér mót og fara í „leiki“ sem enda jafnvel í grófu ofbeldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ofbeldi meðal barna hefur verið að færast niður í yngri aldurshópa og svo virðist sem börn allt niður í 10 ára sogist einfaldlega inn í þá múgæsingu sem myndast þegar hópur lokkar einn eða tvo á ákveðinn stað, með það að markmiði að fara í slag. Úr getur hins vegar orðið mjög harkalegt ofbeldi. Valdimar Víðisson, skólastjóri í Öldutúnsskóla og formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar, segir börnin gjarnan vera að fylgja einhverju „trendi“ sem er í gangi á samfélagsmiðlum hverju sinni.

„Þessi börn vilja öll vel, almennt séð, þetta snýst bara um að menn eru komnir í svona fasa, það er kominn einhver vítahringur, að vera eins aðrir og fylgja þessum hópum,“ segir Valdimar.

Skólasamfélagið hefur, líkt og foreldrar, lögregla og barnavernd, orðið vart við aukna ofbeldishegðun meðal barna og unglinga í haust, eins og mbl.is hefur greint frá síðustu daga. Sérstaklega hefur verið fjallað um fjölgun ofbeldismála í Hafnarfirði þar sem hópar barna og unglinga hafa tekið einn fyrir og beitt grófu ofbeldi. Flestir telja hins vegar að vandamálið sé ekki staðbundið.

Valdimar telur að börn séu móttækileg fyrir samtali um alvarleika …
Valdimar telur að börn séu móttækileg fyrir samtali um alvarleika ofbeldis.

„Það sem við finnum núna er að það er fjölgun á málum, ég er ekki að segja að þetta séu rosalega mörg mál, en það er fjölgun á málum þar sem verið er að hópast saman og mana upp í slagsmál. Jafnvel ofbeldið orðið harkalegra í þessum tilvikum. Það er verið að nota hnefa og fleira. Þetta eru jafnvel niður í 10 ára börn sem við höfum vitneskju um hérna á höfuðborgarsvæðinu sem eru komin inn í svona hópa.

Valdimar ítrekar að ekki sé um mörg mál að ræða, en málum hafi greinilega fjölgað. „Það eru nokkur sem hafa komið upp síðustu vikur. Þar er verið að mæla sér mót og fara í einhvern „leik“ innan gæsalappa, maður á mann þar sem einn hópur manar einhvern til að koma á staðinn sem verður svo fyrir barðinu á jafnvel öllum hópnum.“

Sama mynstrið hafi verið að sjást í ofbeldismálum síðustu ár en þá en þá hafi verið um eldri hópa að ræða, að sögn Valdimars. Elsta stig grunnskóla og jafnvel upp í nemendur í framhaldsskóla. Breytingin sé sú að nú séu gerendur eru yngri.

„Trendin“ allt frá því að stela upp í barsmíðar 

Skólastjórar í Hafnarfirði áttu fund með mennta- og lýðheilsusviði bæjarins í gær þar sem farið var yfir hver viðbrögð skólasamfélagsins ættu að vera vegna þessarar þróunar. Valdimar segir málið litið alvarlegum augum, en til skoðunar er að forvarnarteymi bæjarins komi að fræðslu til foreldra og nemenda. Birgir Örn Guðjónsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gær að foreldar væru mikilvægur hlekkur í samstarfi þeirra sem koma að forvörnum. Það væri hins vegar algengt foreldrar afneituðu vandamálinu og það drægi úr árangrinum.

Í Öldutúnsskóla stendur til að ofbeldismál verði tekin fyrir á bekkjarfundum á næstu vikum með það að leiðarljósi að ofbeldi sé aldrei liðið. „Þannig að samtalið sé tekið, að menn séu vakandi fyrir þessu og láti vita, því þetta eru jafnvel myndbönd sem eru í dreifingu á milli krakkanna og sum mál vitum við ekki einu um. Við í þessum stóra skóla hjá okkur höfum alveg heyrt af þessu og mál komið inn á borð til okkar, sem og  vitum af málum í öðrum skólum bæjarins.“

Spurður út í hvort hann hafi einhverjar kenningar um ástæðu þessarar þróunar segir hann það hafa verið rætt innan skólasamfélagsins að samfélagsmiðlar spili því miður stóran þátt. Um sé að ræða skuggahliðar samfélagsmiðlanna.

Sendir hafa verið tölvupóstar til foreldra þar sem þeir eru …
Sendir hafa verið tölvupóstar til foreldra þar sem þeir eru beðnir um að vera vakandi fyrir allri umræða barna sinna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þar eru „trend“, eins og krakkarnir segja eða er talað um þegar kemur eitthvað svona nýtt inn. Það hefur verið allt frá því að taka hluti úr skólum, stela hlutum, upp í hópamyndun þar sem verið er að lemja einn. Aðgengi að efni fyrir krakka er svo mikið og þau eru farin að herma eftir. Eins og ný sjónvarpsþáttasería á netflix sem er mikið á milli tannanna á börnum og þau vilja herma eftir þessum leikjum. Þetta eru barnaleikir í þessum þáttum, sem börnin þekkja, en ganga út á að myrða og berja,“ segir Valdimar og á þar við kóresku sjónvarpsþættina Squid Game sem hægt er að nálgast á Netflix. Þrátt fyrir að þættirnir séu bannaðir börnum yngri en 16 ára eru töluvert yngri börn að nýta sér hugmyndir úr þeim í leiki.

„Orðið aðeins of mikið þetta haustið“

Valdimar segir auðvitað ekki hægt að skella allri skuldinni á samfélagsmiðla en mikilvægt sé að vera vakandi fyrir því efni sem börnin eru að nálgast þar. „Það eru að sogast inn í svona „trend“ börn sem venjulega eru ekki endilega uppi á borði hjá okkur í einhverri vinnslu, heldur fylgja bara einhverjum hóp,“ útskýrir Valdimar.

„Við höfum sent á foreldra nú póst í tvígang, annars vegar samræmdan póst frá mennta- og lýðheilsusviði og svo sendi ég póst á foreldra í gær og lét vita af þessari umræðu og bað foreldra um að vera vakandi fyrir umræðu og því hverju börnin eru fylgjast með og gera á netinu og sjónvarpsmiðlum. Þetta er bara samstarfsverkefni heimilis og skóla og ef það tekst vel næstu vikur þá er ég alveg sannfærður um að við getum allavega lágmarkað þetta mikið. Þetta er orðið aðeins of mikið þetta haustið.“

Hann telur að börnin séu móttækileg bæði fyrir samtali við fullorðna og jafnaldra um alvarleika ofbeldis. Þetta snúist um að börnin fái skilaboð um að ekki sé í lagi að beita ofbeldi og að þau eigi að láta vita verði þau vör við það.

 „Við teljum að svona starf, að taka heiðarlegt samtal, fara yfir hversu hættulegt þetta er og fleira muni skila sér þeirra sem hafa verið að fylgja hópnum og talið þetta hluta af samfélagsmiðlum að gera þetta. Við ætlum að taka höndum saman til þess að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri að ofbeldi er aldrei liðið í hvaða mynd sem það er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert