Lýsir yfir vantrausti á varaformann stjórnar LIVE

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur lýst yfir vantrausti á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformann stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) og formann Landssamtaka lífeyrissjóða, vegna ummæla hennar í tengslum við hlutafjárútboð Icelandair.

Í facebookfærslu fagnar hann því að Icelandair sé komið fyrir vind og óskar starfsfólki og stjórnendum til hamingju með vel heppnað útboð.

Aftur á móti segist hann vera ósáttur við ummæli og ásakanir í hans garð, stjórnar VR og stjórnarmanna VR hjá LIVE eftir að stéttarfélagið ákvað að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair.

Vísar hann í viðtal við Guðrúnu á Vísi þar sem hún harmar að LIVE hafi ekki tekið þátt í útboðinu og telur hann að fjármálaeftirlitið eigi að gera athugasemdir við ummælin.

Guðrún Hafsteinsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir.

„Það er með miklum ólíkindum hvernig Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða og varaformaður stjórnar LIVE, hefur stigið fram með ásakanir og dylgjur vegna þeirrar ákvörðunar LIVE að taka ekki þátt í hlutafjárútboðinu,“ segir hann og bætir við:

„Í ljósi stöðu sinnar og fyrri yfirlýsinga hlýtur fjármálaeftirlitið að komast að þeirri niðurstöðu að Guðrún Hafsteinsdóttir sé vanhæf til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs með því að réttlæta fjárfestingu í Icelandair vegna þess hversu lítið hlutfall hún er af heildareignum.“

Skorar hann á fjármálaeftirlitið að taka ummæli hennar til skoðunar og meta hana óhæfa til að taka ákvarðanir um fjárfestingar fyrir hönd sjóðsfélaga LIVE.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert