Vantaði meiri þolinmæði

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er mjög svekktur yfir því að hafa bara tekið eitt stig út úr þessum leik en að sama skapi er ég mjög ánægður með hvernig við spiluðum þennan leik. Ég hefði kannski viljað aðeins meiri þolinmæði í kringum markið þeirra,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 0:0 jafntefli við Keflavík á heimavelli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við erum að gera vel úti á vellinum en vantar bara að afgreiða leikinn inni í vítateignum. Það er það sem við þurfum að vinna í núna. Okkur finnst að við séum að nálgast það að kunna að rúlla boltanum á blautu grasi og taka þetta síðasta skref og skora mörk.

Grasið hérna á Selfossi er geggjað, besta gras sem við höfum spilað á í sumar, en við vorum búin að æfa og spila á gervigrasi í allan vetur og vorum komin með flæði í því. Það tekur smá tíma að aðlagast grasinu,“ sagði Björn sem sá björtu hliðarnar þrátt fyrir svekkjandi úrslit.

„Við tökum góða hluti út úr þessum leik og erum áfram eina taplausa liðið í deildinni. Þetta var hörkuleikur í kvöld eins og allir leikir í þessari deild en vissulega hefði ég viljað taka þrjú stig hérna,“ sagði Björn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert