Viktor varði vel fyrir deildarmeistarana

Viktor Gísli Hallgrímsson
Viktor Gísli Hallgrímsson AFP

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG eru deildarmeistarar í dönsku efstu deildinni í handknattleik eftir 30:26-sigur á Fredericia í dag. Viktor varði 16 skot í leiknum.

Aalborg vann 34:30-heimasigur á Holstebro en Óðinn Þór Rík­h­arðsson, sem spilar með KA á Akureyri á næstu leiktíð, skoraði þrjú mörk fyrir gestina. Arn­ór Atla­son er aðstoðarþjálf­ari Ála­borg­arliðsins sem tókst með sigrinum að enda í öðru sæti. Aalborg er með 41 stig í öðru sæti en Holstebro í þriðja sæti með 38 stig.

Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Skjern sem sótti sigur til Mors, 32:26, en Skjern hafnaði í 6. sæti. Ágúst Elí Guðmunds­son varði fimm skot fyrir Kolding sem gerði 31:31-jafntefli gegn Lemvig. Kolding er í 8. sæti og nær inn í úrslitakeppnina.

Íslendingalið Ribe-Esbjerg tapaði gegn botnliði Ringsted á heimavelli sínum, 30:32. Daníel Ingason skoraði fjögur mörk fyrir heimamenn og Rúnar Kárason eitt en liðið hafnar í 9. sæti. Þá skoraði Sveinn Jó­hann­es­son tvö mörk fyrir SönderjyskE sem tapaði á heimavelli gegn Aarhus, 33:27, en endar í 5. sæti.

Nú fara efstu átta liðin í tvo riðla í úrslitakeppninni þar sem liðin í 1. og 2. sæti byrja með 2 stig, liðin í 3. og 4. sæti með 1 stig en liðin í 5.-8. sæti fara stigalaus í keppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert