Dæmdur fyrir ógnandi tölvupósta

Í dómi héraðsdóms er vikið að því hvernig hegðun mannsins …
Í dómi héraðsdóms er vikið að því hvernig hegðun mannsins stingur í stúf við samfélagsumræðu. AFP

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umsáturseinelti.

Var hann ákærður í febrúar fyrir að hafa, á tímabilinu frá apríl og fram í október í fyrra, endurtekið hótað, fylgst með og sett sig í samband við kvenkyns fyrrverandi vinnufélaga sinn, gegn hennar vilja, bæði með tölvupóstum og skilaboðum í gegnum vefinn bland.is. Þá fylgdist hann með henni, meðal annars fyrir utan heimili hennar.

„Hélt ákærði því margítrekað fram við [konuna] að hún [hefði] svikið sig um kynlíf og að hún ætti því m.a. að hafa vit á að vera annars staðar en hann það sem eftir er, að hún væri ómerkileg, að hún væri lygin, að hún væri heppin að hann væri bara reiður, að hún ætti eftir að sjá eftir því alla ævi að hafa svikið hann en einnig reyndi ákærði að fá [konuna] til að bæta fyrir það sem hann hélt fram að væru svik,“ sagði í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Ítrekað beðinn um að láta hana í friði

Tekið er fram að konan hafi greint frá því að hún og karlmaðurinn hefðu hafið vinskap í kringum áramótin 2018-2019, sem hefðu þróast út í einhvers konar daður. Þau hafi átt sameiginlegan vin og öll þrjú unnið á sama vinnustað.

„Brotaþoli kvað sér hafa fundist þetta óþægilegt, sérstaklega eftir að hún hafi komist að því að ákærði ætti konu og börn, og hætt samskiptum við ákærða í apríl 2020. Ári síðar hafi ákærði haft samband við hana í gegnum Bland en einnig áreitt brotaþola með tölvupóstum og meðal annars rukkað hana um kynlíf, sem ákærði taldi brotaþola skulda sér.

Brotaþoli kvaðst ítrekað hafa beðið ákærða um að láta sig í friði, án árangurs. Brotaþoli samþykkti að beitt yrði vægara úrræði en nálgunarbanni gagnvart ákærða, svokallaðri Selfossleið, en þá skrifar meintur sakborningur undir yfirlýsingu um að hafa ekkert samband við brotaþola í allt að 12 mánuði frá undirritun.“

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 1. desember.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 1. desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Játaði sendingarnar

Fram kemur að maðurinn játaði, þann 30. september í fyrra, að hafa sent konunni skilaboðin sem lágu fyrir í málinu með tölvupóstum og í gegnum Bland, þar sem hann meðal annars rukkaði hana um kynlíf sem hann taldi hana hafa lofað sér.

„Kvað hann ástæðu skilaboðanna eftir ár án samskipta vera þá að hann hafi séð brotaþola í verslun í [...] og snöggreiðst,“ segir í dómi héraðsdóms.

„Ákærði skrifaði undir yfirlýsingu um að koma ekki á eða vera við heimili brotaþola og jafnframt að veita henni ekki eftirför, heimsækja eða vera með öðru móti í sambandi við hana, svo sem með símtölum, tölvupósti eða öðrum hætti í 12 mánuði frá undirritun. Ákærði kvaðst aldrei ætla að hafa samskipti við brotaþola framar og að hún þyrfti ekki að óttast hann.“

Því næst kemur fram að lögmaður konunnar hafi sent lögreglu tölvupóst þann 11. október í fyrra og greint frá því að maðurinn hefði sent henni tölvupóst daginn áður, þar sem hann hefði boðið henni greiðslu gegn því að hún félli frá kæru.

Snilldarhugmynd að senda leiðindaskeyti

Óskaði lögmaðurinn þá eftir nálgunarbanni gagnvart manninum.

Tekin var skýrsla af honum degi síðar og honum birt ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann, auk þess sem tölvupósturinn var borinn undir hann.

„Hann kvaðst hafa hugsað með sér að þetta gæti nú ekki verið svo slæmt og sent skilaboðin. Ákærði samþykkti ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann,“ segir í dóminum.

Kvaðst maðurinn fyrir dómi hafa fengið „þá snilldarhugmynd að senda henni eitthvert leiðindaskeyti“.

Fyrir sama dómi sagði konan, spurð um líðan sína í dag, að hún væri svipuð og áður. Hún og maðurinn byggju í sama bæjarfélagi, hún væri mjög vör um sig þegar hún færi í búð og kvaðst helst ekki fara í búð í sínu bæjarfélagi, auk þess að læsa hurðum á bílnum þegar hún keyri um. Þetta hafi haft mikil áhrif á líf hennar og geri enn í dag.

Gefið í skyn að eitthvað geti hent konuna

Í niðurstöðukafla héraðsdóms segir að af málsgögnum og því sem fram hafi komið við aðalmeðferð málsins megi ráða „að ákærði og brotaþoli hafi verið í miklum samskiptum á árunum 2019 og 2020 þar sem kynlíf hafi verið rætt en ekki orðið af því og brotaþoli hafi endað þau samskipti“.

Segir enn fremur í dóminum:

„Í tvennum skilaboðum ákærða er gefið í skyn að eitthvað geti hent brotaþola verði hún á vegi ákærða, en upplifun brotaþola var að þau skilaboð hefðu verið einna verst. Er þar um að ræða skilaboð í gegnum bland.is þann 4. apríl 2021 þar sem segir m.a.: „Er best fyrir þig að hafa vit á því að vera einhvers staðar allt annars staðar en ég er það sem eftir er og ég ætla rétt að vona að ég þurfi aldrei að sjá þig aftur.“ Skilaboð ákærða 6. apríl 2021 voru sama marki brennd en þar segir m.a.: „Mundu bara það sem ég sagði þér, ef ég þarf ekki að sjá þig þá færðu frið fyrir mér, það stendur!“

Nýtt ákvæði í hegningarlögum

Þegar ákæran var gefin út var aðeins ár liðið frá því sú lagagrein tók gildi sem brot mannsins voru talin varða við, þ.e. 232. gr. a. almennra hegningarlaga.

Í henni segir eftirfarandi:

Hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.

Í dómi héraðsdóms er bent á að ákvæðinu sé ætlað að verja einstaklinga gegn því að þurfa að þola endurtekið að annar einstaklingur hafi samband í óþökk viðtakanda með svívirðingum eins og í þessu tilviki.

Þá er vikið að því hvernig hegðun mannsins stingi í stúf við samfélagsumræðu.

„Efni skilaboðanna er þess eðlis að ætla mætti að ákærði hafi ekki verið þátttakandi í íslensku samfélagi þar sem fátt hefur fengið meiri umfjöllun en kynfrelsi einstaklinga, ekki síst kvenna, og að það teljist vera nauðgun í skilningi 194. gr. almennra hegningarlaga ef ekki er tekið tillit til þess þegar samþykki til kynmaka er dregið til baka, á hvaða stigi þeirra sem er, hvað þá ef beitt er hótunum í því skyni.“

Sýknaður vegna skorts á rannsókn

Sérstaklega er tekið fram að ekki sé dregið í efa að konan hafi séð manninn fyrir utan heimili sitt, miðað við framburð mannsins sjálfs, sem kvaðst hafa ekið fram hjá heimili hennar margoft með dóttur sína til vinkonu sinnar.

„Er heldur ekki dregið í efa að það hafi svipt brotaþola öryggistilfinningu eins og hún lýsti fyrir dómi. Hins vegar var þessi þáttur ákæru sem lýtur að því að ákærði hafi fylgst með brotaþola fyrir utan heimili hennar ekkert rannsakaður af hálfu lögreglu en þar stendur orð gegn orði. Verður ákærði því sýknaður af þessum hluta ákærunnar.“

Að öðru leyti þykir maðurinn hafa gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í ákæru lögreglustjórans.

Engin gögn um skráðan kostnað

Litið er til þess í dóminum að maðurinn hefur ekki áður sætt refsingu samkvæmt sakavottorði.

Auk tveggja mánaða skilorðsbundins fangelsis er hann dæmdur til að greiða konunni 600 þúsund krónur í miskabætur, rúma milljón króna í málsvarnarlaun til lögmanns síns og tæpar 800 þúsund krónur til réttargæslumanns konunnar.

Athygli vekur að í dóminum segir einnig að af hálfu ákæruvaldsins hafi skráður kostnaður vegna meðferðar málsins numið 31.340 krónum.

„Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu til stuðnings þeirri kröfu og verður ákærði af þeim sökum sýknaður af henni,“ segir svo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert