Erfitt að ná sambandi við Rauða krossinn

Starfsmaður Rauða krossins í farsóttarhúsi.
Starfsmaður Rauða krossins í farsóttarhúsi. Ljósmynd/Rauði Kross Íslands

Erfitt getur reynst fyrir fólk að ná símasambandi við Rauða kross Íslands um þessar mundir vegna álags sem hlýst af rekstri farsóttarhúsa. Það á meðal annars við hjálparsíma Rauða krossins.

Í tilkynningu um máið segir að hraður vöxtur smita í samfélaginu hafi valdið því að RKÍ hafi þurft að leggjast í miklar mannaráðningar. Allt starfsfólk sem ráðið er þurfi síðan sérþjálfun áður en það getur hafið störf.

Farsóttarhúsum fjölgaði hratt

Sex farsóttarhús eru nú opin, fimm á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Akureyri. Fyrir ekki margt löngu voru aðeins þrjú farsóttarhús opin á höfuðborgarsvæðinu.

„Starfsmenn Rauða krossins hringja nú allan daginn í fólk sem óskar eftir dvöl og forgangsraða smituðum einstaklingum inn á farsóttarhúsin. Í forgangi eru þeir sem með engu móti geta dvalið í heimahúsi og ferðamenn sem ekki geta dvalið á hefðbundnum hótelum lengur. Algengt er að ferðamenn sem hafa þegar skráð sig út af hóteli greinist síðan í hraðprófi með Covid-19 á leið úr landi. Þeir geta ekki bókað hótelherbergi á ný og eru því ekki með þak yfir höfuðið. Þá er lögð áhersla á að smitaðir einstaklingar sem ekki geta dvalið heima vegna alvarlegra undirliggjandi sjúkdóma annarra heimilismanna fái inni á farsóttarhúsi,“ segir á vef RKÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka