Fótbolti

Eiður Smári lætur af störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfai Íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, og Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari hans. Eiður lætur af störfum í næstu viku.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfai Íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, og Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari hans. Eiður lætur af störfum í næstu viku. Vísir/Jónína Guðbjörg

Eiður Smári Guðjohnsen og stjórn KSÍ hafa komist að samkomulagi um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla.

Frá þessu er greint á heimasíðu KSÍ, en samkomulagið snýr að því að virkjað hefur verið endurskoðunarákvæði í samningi Eiðs og mun hann láta af störfum þann 1. desember næstkomandi.

Eiður hefur verið í þjálfarateymi A-landsliðs karla frá desember 2020, en hann lék á sínum tíma 88 leiki fyrir liðið og skoraði í þeim 26 mörk.

„Samkomulag um starfslok mín voru tekin með hagsmuni mína, landsliðsins og KSÍ að leiðarljósi. Ég vil þakka öllum innan sambandsins fyrir frábært samstarf undanfarið ár. Síðasta ár hefur verið mjög krefjandi bæði innan vallar sem og utan bæði fyrir mig persónulega sem og sambandið. Áfram Ísland!“ segir Eiður Smári á vef KSÍ.

Eiður fékk skriflega áminningu frá KSÍ og var sendur í tímabundið leyfi í sumar, eftir að myndband af honum fór í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem hann sást kasta af sér vatni að næturlagi í miðborg Reykjavíkur.

Frá því að Arnar Þór Viðarsson hóf að þjálfa fyrir KSÍ hefur Eiður verið hans aðstoðarþjálfari. Þeir tóku við U21-landsliði karla í ársbyrjun 2019, liði sem þeir komu í lokakeppni EM 2021. 

Arnar og Eiður tóku svo við A-landsliðinu í lok síðasta árs og stýrðu því í nýafstaðinni undankeppni HM. Ísland endaði í næstneðsta sæti J-riðils með níu stig í tíu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×