Manchester United og Bayern Munchen mættust í Meistaradeildinni í kvöld í leik þar sem Bayern hafði betur í miklum markaleik.
Fyrsta mark leiksins sem Leroy Sane skoraði fyrir Bayern skrifast algjörlega á Andre Onana markvörð United. Hann missti skotið undir sig og kom Bayern á bragðið. Onana vissi upp á sig sökina eftir leik og óskaði sjálfur eftir því að koma í viðtal hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS.
„Þetta er erfitt. Við byrjuðum vel en eftir mistökin mín misstum við stjórnina á leiknum. Þetta er erfið staða fyrir okkur, fyrir mig,“ sagði Onana eftir leik.
„Liðið lenti undir vegna þessara mistaka. Ég verð að læra af þeim og vera sterkur. Ég er ánægður með hvernig liðið kom til baka.“
Onana hefur ekki byrjað neitt sérstaklega sannfærandi í búningi United. Í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar var hann heppinn að fá ekki á sig vítaspyrnu undir lok leiksins gegn Wolves og í kvöld voru mistök hans dýrkeypt.
„Ég hef mikið að sanna. Byrjun mín hjá Manchester United hefur ekki verið sú besta, ekki sú sem ég vildi. Þetta var einn af mínum verstu leikjum. Við erum með háleit markmið. Þetta er erfiður tími og við þurfum að koma saman og leggja hart að okkur.“