Viðskipti innlent

Baulan til leigu

Snorri Másson skrifar
Baulan var reist árið 1986 og Skeljungur keypti húsnæðið fyrir tæpu ári.
Baulan var reist árið 1986 og Skeljungur keypti húsnæðið fyrir tæpu ári. Vísir/Vilhelm

Skeljungur hf. hefur auglýst Bauluna í Borgarfirði til leigu eftir að síðustu rekstraraðilar hættu þar veitingarekstri fyrr á árinu. Það er lítið um ferðamenn á svæðinu eins og er en talsmaður Skeljungs segir að félagið stefni á að koma húsnæðinu í leigu fyrir sumarið.

Baulan er rótgróinn áfangastaður á svæðinu, bæði veitingastaður og verslun. Staðurinn er á meðal frumkvöðla á Íslandi þegar kemur að því að taka gjald af ferðafólki fyrir klósettferðir, þannig að þar er ekkert sem heitir ókeypis.

Skeljungur rekur þegar bensínstöð við Bauluna, og mun halda því áfram, en vill ekki annast annan rekstur í húsnæðinu. Karen Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs hjá félaginu, segir að félagið vilji frekar leigja húsnæðið til aðila með sérþekkingu í rekstri stærri veitingastaða.

Verðið samkomulagsatriði

Skeljungur heldur úti nokkrum „Kvikk on the go“-stöðvum víða um land, þó að nokkrum hafi verið lokað upp á síðkastið. Karen segir að vilji félagsins standi frekar til að koma rekstri Baulu í hendur annarra en að setja þar upp eina „Kvikk on the go.“

Viðræður eru þegar hafnar við nokkra aðila en ekkert fast í hendi. „Þannig að við erum tilbúin að ræða við fleiri,“ segir Karen. Verðið er samkomulagsatriði.

Félagið keypti Bauluna af Olís í maí í fyrra og setti þá upp bensínstöð þar undir merkjum Orkunnar. Markmiðið var þá að efla veitingaþjónustuna, eins og þar sagði. Baulan var reist árið 1986 og nefnd í höfuðið á frægu fjalli í næsta nágrenni.


Tengdar fréttir

Skeljungur kaupir rekstur Baulunnar

Í kaupunum felst allur fasteignar- og lóðarréttur ásamt verslunarrekstri á svæðinu þar sem Baulan er til húsa.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×