Óttar á skotskónum í grátlegu tapi

Óttar Magnús Karlsson í leik með íslenska U21-árs landsliðinu á …
Óttar Magnús Karlsson í leik með íslenska U21-árs landsliðinu á sínum tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Sóknarmaðurinn Óttar Magnús Karlsson skoraði annað marka Siena þegar liðið tapaði á grátlegan hátt fyrir Ancona Matelica í ítölsku C-deildinni í knattspyrnu karla í dag.

Óttar Magnús var í byrjunarliði Siena og kom Siena í 1:0 á 10. mínútu leiksins. Þetta var annað mark hans fyrir félagið á tímabilinu.

Liðsfélagi hans Cristiano Bani tvöfaldaði forystuna fyrir Siena eftir tæplega klukkutíma leik en heimamenn í Ancona svöruðu með tveimur mörkum, á 69. og 77. mínútu, og jöfnuðu þar með metin.

Sigurmark Ancona kom svo á fimmtu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma og grátlegt 2:3 tap Siena staðreynd.

Óttar Magnús lék allan leikinn í liði Siena og er að festa sig í sessi í byrjunarliðinu eftir að hafa verið mikið á varamannabekknum í upphafi tímabils.

Siena er í áttunda sæti ítölsku C-deildarinnar með 23 stig eftir 17 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert