Næsthæsta sekt fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sekt Mjólkursamsölunnar vegna alvarlegrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu er sú næsthæsta sem fyrirtæki á Íslandi hefur fengið fyrir brot af þessu tagi.

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Landsréttar þess efnis að MS bæri að greiða 480 milljónir króna í ríkissjóð vegna brotanna, en fyrirtækið seldi keppi­naut­um sín­um hrámjólk á mun hærra verði en Mjólk­ur­sam­sal­an sjálf og tengd­ir aðilar þurftu að greiða. Málið komst upp árið 2012, en fjórum árum síðar lagði Samkeppniseftirlitið 480 milljóna króna sekt á MS, sem nú hefur verið staðfestur á öllum dómstigum.

Á sínum tíma sneri áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins við en Samkeppniseftirlitið áfrýjaði þeirri niðurstöðu. 

Í yfirlýsingu frá Samkeppniseftirlitinu er haft eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að dómurinn hafi mikla þýðingu fyrir starfsumhverfi í framleiðslu mjólkurafurða og styrki stöðu bænda og neytenda. „Þannig staðfestir dómurinn mikilvægi samkeppni á mjólkurmarkaði og að MS sé með öllu óheimilt að grípa til aðgerða sem miða að því að smáir keppinautar nái ekki fótfestu eða hrökklist út af markaðnum.“

Sem fyrr segir greiðist sektin í ríkissjóð. Í samtali við mbl.is segir Páll að hlutverk Samkeppniseftirlitsins sé að ákvarða sektir sem skapi varnaðaráhrif, en ekki að ákvarða bætur til þeirra sem kynnu að hafa orðið fyrir tjóni vegna brotanna, hvort heldur neytenda eða keppinauta. „Það er þá viðkomandi aðila að sækja bætur í einkamáli,“ segir Páll.

Nokkur dæmi eru um slík einkamál, til að mynda í kjölfar olíusamráðsins, þar sem Esso, Olís og Skeljungur voru dæmd fyrir ólöglegt verðsamráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK