Vinsælustu kvenkyns persónurnar í tölvuleikjum

Lara Croft eins og hún kemur fyrir sjónir í tölvuleiknum …
Lara Croft eins og hún kemur fyrir sjónir í tölvuleiknum Tomb Raider frá árinu 2013. Mynd/IGN

Þó svo að kvenkyns tölvuleikjaspilarar séu ekki mikið í sviðsljósinu eru samt sem áður margar kvenkyns persónur í tölvuleikjum. Eflaust dettur lesendum einhver persóna í hug þegar þeir hugsa til kvenkyns persóna, en hvaða persónur hafa notið mestra vinsælda?

Lara Croft – Tomb Raider

Í leikjaröð Tomb Raider er aðalsögupersónan konan Lara Croft. Hún er eflaust þekktasta kvenkyns persóna í tölvuleikjum frá upphafi. Hún leit fyrst dagsins ljós árið 1996 þegar fyrsti leikur leikjaraðarinnar kom út. Síðan þá hafa komið út margar útgáfur leiksins þar sem persónan Lara Croft hefur gengið í gegnum breytingar, en útlit og eiginleikar hennar hafa verið eins frá upphafi. 

Lara Croft stjórnar sínu ferðalagi í leikjunum ásamt því sem hún notar byssur, leysir úr vandamálum og safnar fjársjóð. Tomb Raider var með fyrstu tölvuleikjunum sem höfðu konu sem aðalpersónu og má ætla að það hafi hvatt aðra leikjaframleiðendur til að gera slíkt hið sama.

Chloe Frazer – Uncharted

Chloe kemur fyrst við sögu í leiknum Uncharted 2 þar sem hún aðstoðar tvær aðrar persónur við að stela grip af safni. Hún er kynnt til leiks sem heillandi og miskunnarlaus persóna sem notar vitsmuni sína og gáfur til að koma hlutum í verk. Hún er sjálfstæð og sterk og lætur ekki segja sér hvað sem er.

Chloe spilar á móti annarri kvenkyns persónu í leiknum með þeim afleiðingum að hún flækist í ástamál annarra persóna. Chloe sýnir margar mismunandi tilfinningar í The Lost Legacy, viðbót leiksins, sem gefur persónu hennar dýpt og raunveruleika.

Ellie – The Last of Us

Ellie er unglingur er hún kemur fyrst við sögu í leiknum The Last of Us. Hún er sett í stöðu þar sem hún þarf að læra að laga sig að heiminum og samfélaginu á meðan hún reynir eftir bestu getu að lifa af heimsendi. 

Í gegnum sögu leiksins fylgja spilarar Ellie á ferð sinni, tengjast henni mikið og vaxa með henni. Hún tekst á við margar tilfinningalegar og hættulegar aðstæður, en styrkur hennar og seigla aukast með hverju áfalli og erfiðleikum sem hún verður fyrir. Ellie er sterk persóna sem gefst ekki upp þegar líf hennar verður erfitt.

Clementine – The Walking Dead

Líkt og Ellie í leiknum The Last of Us fá spilarar að fylgja Clementine frá unga aldri. Clementine er persóna í leiknum The Walking Dead, sem gerðir voru út frá þáttaröðinni. Hún berst fyrir því að lifa á meðan uppvakningar reyna að taka yfir heiminn. Spilarar fá að taka ákvarðanir fyrir hennar hönd sem stjórna gangi leiksins. 

Clemetine er sterkur leiðtogi, en hún stendur frammi fyrir aldursfordómum, sem hún höndlar á þroskaðan og rökréttan hátt, sem gerir það að verkum að hún vex á ferð sinni í leiknum. Hún er viljasterk, þroskuð og sjálfstæð, sem gerir hana að viðkunnanlegri persónu. 

Aloy – Horizon Zero Dawn

Persónan Aloy er í leiknum Horizon Zero Dawn, þar sem hún elst upp útskúfuð úr samfélagshópi sínum og þarf að sýna bandamönnum hennar ástæðu til að virða hana. Spilarar fylgja ferðalagi Aloy til að komast að því hver hún og er hver tilgangur hennar er. 

Aloy er forvitin og tilbúin að læra um tækni heimsins sem hún lifir í, sem gerir hana enn útskúfaðri frá samfélagshópnum sem er á móti tækni. Hún er klár, líkamlega sterk, viljasterk og djörf með flókna fortíð. Hún er einstök og ólík flestum öðrum kvenkyns persónum sem nefndar eru í greininni að því leyti að hún er mjög kotroskin og þrjósk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert