Vorum sjálfum okkur verstir

Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld.
Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni í kvöld. AFP

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta var skiljanlega svekktur þegar hann ræddi við RÚV eftir 23:25-tap gegn Portúgal í fyrsta leik Íslands á HM karla í Egyptalandi í kvöld. 

„Við gerðum allt of marga tæknifeila í sókninni eða fimmtán stykki og það gengur ekki upp á meðan þeir gera sjö. Við færðum þeim boltann of oft á silfurfati og í svona jöfnum leik þá gengur það ekki upp. Við fórum svo líka illa með dauðafæri og þar á meðal hraðaupphlaup. Við vorum sjálfum okkar verstir,“ sagði Guðmundur. 

Hann var óánægður með mistækan sóknarleik íslenska liðsins. „Að fá á sig 25 mörk er lítið og markvarslan kom í seinni hálfleik en svo náum við ekki að nýta þá möguleika sem koma; yfirtala, hraðaupphlaup og svo vorum við að reyna að troða boltanum inn á línu of oft í vonlausar stöður og þeir refsa fyrir það.

Við vissum að þetta yrði 50/50 leikur og til að vinna svona leik á HM þá þarf margt að ganga upp. Mér fannst ákveðið hik í mönnum þrátt fyrir að við byrjuðum vel en svo förum við að kasta boltanum frá okkur. Þetta voru óvenjumörg mistök sem andstæðingurinn nýtir sér síðan. Það sýnir ákveðinn styrk að tapa með tveggja marka mun á móti þessu liði þrátt fyrir það en við verðum að halda áfram,“ sagði Guðmundur Guðmundsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert