Innlent

Odd­ný Mjöll verður dómari við MDE eftir langa fæðingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Oddný Mjöll hefur verið landsréttardómari frá 2018.
Oddný Mjöll hefur verið landsréttardómari frá 2018.

Þing Evrópuráðsins kaus í dag Oddnýju Mjöll Arnardóttur dómara við Mannréttindadómstól Evrópu. Oddný Mjöll var ein af þremur sem tilnefnd voru sem dómaraefni af hálfu íslenskra stjórnvalda. Oddný tekur við af Róberti Spanó sem hefur verið fulltrúi Íslands hjá dómstólnum frá 2013.

Kjör­tíma­bil Ró­berts rann út hinn 31. októ­ber 2022 en hann gegndi stöðu forseta dómstólsins frá apríl 2021 fyrstur Íslendinga. Skipunartími dómara er til níu ára og ekki er hægt að sækja um endurskipun.

Staða Íslands við dómstólinn var auglýst í lok árs 2021 og sóttu þrír um stöðuna. Oddný, Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður og Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins fjallaði um umsóknirnar og mat þær allar hæfar.

Hins vegar vandaðist málið þegar nefnd ráðgjafa á vegum Evrópuráðsins tók viðtöl við umsækjendur eins og Kjarninn fjallaði um síðastliðið sumar. Aðeins Oddný þótti hæf og drógu Jónas Þór og Stefán Geir umsóknir sínar til baka. Reglur Mannréttindadómstólsins krefjast þess að kosið sé á milli þriggja hæfra dómara. Ráðuneytið auglýst stöðuna því aftur og sóttu sóttu Dóra Guð­munds­dóttir lög­fræð­ingur og Páll Þór­halls­son, skrif­stofu­stjóri í for­sæt­is­ráðu­neyt­inu.

Úr varð að Oddný var metin hæfust og kosinn dómari við dómstólinn á þingi Evrópuráðs í dag rúmu ári eftir að staðan var auglýst.

Oddný Mjöll hefur verið landsréttardómari frá 2018 en áður var hún prófessor, bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, auk þess að vera sjálfstætt starfandi lögmaður. Hún er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og doktorspróf frá lagadeild Edinborgarháskóla.

Oddný Mjöll verður fyrsta konan sem er skipuð dómari við Mannréttindadómstól Evrópu af hálfu Íslands en skipunartíminn er til níu ára. Alls eiga 46 dómarar frá aðildarríkjum Evrópuráðsins sæti í dómstólnum.

Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu og er aðsetur hans í Strassborg í Frakklandi. Dómstóllinn fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×