„Vonandi þurfa sem fæstir að kynnast þessu“

Sauðfé í Skagafirði, mynd úr safni.
Sauðfé í Skagafirði, mynd úr safni. mbl.is/Golli

Allt stefnir í að farga þurfi á þriðja þúsund fjár á nokkrum bæjum í Skagafirði eftir að riðusmit greindist í fé frá Stóru Ökrum í Akrahreppi. Fé þaðan hafði farið á bæi í nágrenninu og hefur þar hugsanlega borið smit í aðrar kindur. 

Hrútur frá Stóru Ökrum var í afkvæmarannsókn á Syðri-Hofdölum. Þegar riðusmit greindist á Stóru Ökrum var hrútur þessi tekinn til rannsóknar og þá greindist slíkt hið sama hjá honum. Í kjölfarið voru kindurnar sem hann hafði umgengist, um 100 talsins, settar í sóttkví.

Atli Traustason á Syðri-Hofdölum segir í samtali við mbl.is að verið sé að undirbúa aðgerðir til að bregðast við þessu. Ef riða greinist í einhverjum gripanna sem hrúturinn blandaðist verður að líkindum öllum 650 kindunum á bænum fargað.

„Vonandi þurfa sem fæstir að kynnast þessu,“ segir Atli.

Atli Traustason sauðfjárbóndi.
Atli Traustason sauðfjárbóndi. Ljósmynd/Facebok

Aldrei séð riðuveika kind

Riða getur greinst í fé löngu áður en það er farið að láta á sjá. Sjúkdómurinn er hægfæra, leggst á miðtaugakerfið og veldur að lokum lömun. Gangur í sýktu fé verður óstyrkur, það verður kviðdregið og ullin rýr, og leggst að lokum fyrir.

Hrútnum sem reyndist smitaður hjá Atla varð að hans sögn aldrei misdægurt. „Hann varð aldrei veikur, það greindust bara þessar breytingar í heila. Ég hef aldrei séð riðuveika kind, sem betur fer,“ sagði Atli. Riða hefur ekki greinst í Tröllaskagahólfi í 20 ár. 

Auk Syðri-Hofdala hefur riða greinst á sauðfjárbúinu Grænumýri, þar sem er um 800 fjár. Á þessum þremur bæjum eru vel á þriðja þúsund samanlagt og smitið gæti verið enn víðar. Á Stóru Ökrum er staðfest að fella þurfi verulega margt fé.

Uppfært: Endanlegrar staðfestingar á riðusmitum á umræddum bæjum er ekki að vænta fyrr en í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert