Lék fjórtán ára í 1. deildinni

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK og Karl Ágúst Karlsson eftir …
Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK og Karl Ágúst Karlsson eftir undirritun samningsins. Ljósmynd/HK

Karl Ágúst Karlsson varð á dögunum yngsti leikmaður meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá HK frá upphafi þegar hann lék fjórtán ára gamall með liðinu í fyrstu umferð 1. deildar karla, Lengjudeildinni.

Karl Ágúst, sem varð einmitt fimmtán ára í gær, var 14 ára og 360 daga gamall þegar leikurinn fór fram. Hann kom inn á sem varamaður í leiknum en hafði áður spilað fimm mótsleiki fyrir HK í vetrarmótunum. Hann skrifaði í vikunni undir nýjan samning við HK til ársloka 2024.

HK tapaði leiknum í fyrstu umferð, gegn Selfossi í Kórnum, 2:3, en mætir KV í annarri umferð deildarinnar í Vesturbænum í kvöld. Karl verður ekki með í þeim leik því hann er með U16 ára landsliði Íslands á alþjóðlegu móti í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert