Fréttir

Dæmdur fyrir ræktun 224 kanna­bis­plantna á heimilinu

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var dæmdur til greiðslu rúmlega 300 þúsund króna í sakarkostnað.
Maðurinn var dæmdur til greiðslu rúmlega 300 þúsund króna í sakarkostnað. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fimm mánaða fangelsi fyrir vörslu á rúmlega 32 grömmum af maríjúana og ræktun á 224 kannabisplöntur sem fundust við húsleit á heimili mannsins í Reykjavík í nóvember 2019. Hann er talinn hafa ræktað kannabis um nokkurt skeið.

Fullnusta refsingarinnar skal fresta, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.

Maðurinn játaði sakargiftir skýlaust og hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Þó var það tekið til refsiþyngingar hversu styrkur og einbeittur vilji mannsins hafi verið.

„Ákærði hafði í vörslum sínum umtalsvert magn kannabisplantna og stóð fyrir ræktun þeirra í nokkurt skeið. Með vísan til framan greinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð,“ segir í dómnum.

Í dómsorðum segir ennfremur að kannabisplönturnar 224 og marijúana verði gerð upptæk, auk þess að ákærði greiði rúmlega 300 þúsund krónur í sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×