Bayern tapaði og Dortmund á toppnum

Argentínumaðurinn Exequiel Palacios skorar sigurmark Leverkusen úr seinni vítaspyrnunni í …
Argentínumaðurinn Exequiel Palacios skorar sigurmark Leverkusen úr seinni vítaspyrnunni í dag. AFP/Ina Fassbender

Bayern München lenti í dag í enn frekari vandræðum í baráttunni um þýska meistaratitilinn í knattspyrnu þegar liðið tapaði fyrir Leverkusen á útivelli í 1. deildinni, 2:1.

Þetta er fjórða tap Bayern á tímabilinu og liðið er nú stigi á eftir Borussia Dortmund sem vann í gær stórsigur á Köln, 6:1. Dortmund er nú með 53 stig og Bayern 52, og Union Berlín er á hælum þeirra með 48 stig eftir sigur á Eintracht Frankfurt í dag, 2:0.

Staðan var þó góð fyrir Bayern lengi vel, eftir að Joshua Kimmich kom liðinu yfir á 22. mínútu. En á 55. mínútu jafnaði Exequiel Palacios fyrir Leverkusen úr vítaspyrnu, 1:1. Á 73. mínútu fór Palacios aftur á vítapunktinn og brást ekki heldur bogalistin þar. Það reyndist sigurmarkið, 2:1, og Leverkusen er nú í 8. sæti deildarinnar.

Bayern hefur unnið meistaratitilinn í tíu ár í röð, og í 32 skipti alls, en Dortmund varð síðasta liðið utan München til að hreppa hann, árin 2011 og 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert