Drullu svekktir en frammistaðan ekkert sérstök

Björn Berg Bryde (nr.24) skallar boltann frá í leiknum í …
Björn Berg Bryde (nr.24) skallar boltann frá í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Björn Berg Bryde, miðvörður Stjörnunnar, var vitanlega svekktur með að hafa glutrað niður forystunni í uppbótartíma í 1:1-jafnteflinu við KR í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld en sagði Garðbæinga þó ekki hafa verið upp á sitt besta í leiknum.

„Við erum náttúrlega drullu svekktir úr því sem komið var en frammistaðan í þessum leik var ekkert sérstök fannst mér. Við héldum boltanum illa, sköpuðum minna af færum en við erum vanir og vorum klaufar að missa þetta niður í jafntefli í restina.

Þetta mark lá alveg í loftinu hjá KR en það er svekkjandi að hafa ekki náð að halda þetta út,“ sagði Björn Berg í samtali við mbl.is eftir leik.

Stjörnumenn voru eins og hann kom inn á ekki jafn beittir fram á við og þeir hafa verið í flestum leikjum sínum það sem af er sumri. Hverju sætti?

„Ég veit það ekki. Við fórum kannski með aðeins öðruvísi taktík inn í þennan leik en við erum vanir. Við ákváðum að leyfa þeim að hafa boltann og sjá hvað þeir myndu gera. Þá kannski erum við ekki í stöðunum sem við erum vanir þegar við vinnum síðan boltann, þá erum við lengra frá markinu.

KR er náttúrlega líka bara mjög gott lið, þetta eru reynslumiklir leikmenn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Þeir voru bara klókir og náðu að brjóta sóknirnar okkar niður frekar fljótt. Við náum okkur ekki alveg á skrið, sérstaklega í seinni hálfleik sköpuðum við lítið sem ekki neitt,“ útskýrði Björn.

Stóran hluta leiksins vörðust Stjörnumenn hins vegar vel þar sem KR þjarmaði að heimamönnum. Spurður hvort Stjarnan gæti ekki byggt ofan á þennan góða varnarleik í framhaldinu sagði hann að lokum:

„Jú, jú að mörgu leyti. Við sýndum það, eða sýndum það kannski næstum því, í þessum leik að við erum ekki bara að pressa. Við getum líka alveg haldið okkur niðri á vellinum og verið í þessari stöðu niðri en við vorum ekki alveg nógu beittir þegar við unnum boltann í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert