Hélt að hún hefði komið fyrst í mark

Annemiek Van Vleuten fagnar á marklínunni þar sem hún hélt …
Annemiek Van Vleuten fagnar á marklínunni þar sem hún hélt að hún væri orðin Ólympíumeistari. AFP

Þegar Annemiek van Vleuten kom í mark eftir að hafa hjólað 137 kílómetra í götuhjólreiðakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í morgun fagnaði hún sigri. Fljótlega komst hún þó að því að þar hljóp hún heldur betur á sig.

Van Vleuten hjólaði vegalengdina á þremur klukkustundum og 54 mínútum og var hin ánægðasta þegar hún kom í markið en síðan var henni sagt að Anna Kiesenhofer frá Austurríki hefði lokið keppni einni mínútu og fimmtán sekúndum á undan henni.

Anna Kiesenhofer á leið í mark sem Ólympíumeistari í götuhjólreiðum …
Anna Kiesenhofer á leið í mark sem Ólympíumeistari í götuhjólreiðum kvenna. AFP

Sú hollenska fékk því silfurverðlaunin og sagði eftir keppnina að hún hefði misreiknað sig algjörlega. „Ég hélt að ég væri fyrst en það var alrangt," sagði hún og í ljós kom að stjórnendur hollenska liðsins höfðu einhverra hluta vegna misst algjörlega af Kiesenhofer og fylgdust ekkert með henni.

Málin rædd þegar Annemiek Van Vleuten komst að því að …
Málin rædd þegar Annemiek Van Vleuten komst að því að hún fengi silfur en ekki gull. AFP

Samherji van Vleuten, Anna van der Breggen, ólympíumeistarinn frá Ríó 2016 sem endaði í fimmtánda sæti í morgun, vissi ekki einu sinni hver sú austurríska var. „Nei, ég hafði ekki hugmynd um að það væri keppandi á undan okkur. Ég held að það hafi enginn verið að fylgjast með henni. Ég þekki hana ekki einu sinni!" sagði van der Breggen.

Annemiek Van Vleuten, Anna Kiesenhofer og Elisa Longo Borghini frá …
Annemiek Van Vleuten, Anna Kiesenhofer og Elisa Longo Borghini frá Ítalíu á verðlaunapallinum. AFP

Elizabeth Deignan frá Bretlandi sem endaði í 11. sæti sagði að Hollendingar gætu sjálfum sér um kennt og hefðu líklega mætt til leiks með of marga  sigurstranglega keppendur. „Hvernig skipuleggurðu hlutina á liðsfundinum þegar þú ert með fjóra keppendur sem geta allir unnið? Hvernig ákveður þú hlutina. Þetta eru allt ótrúlegir keppendur, en þau hefðu átt að velja sér einn leiðtoga til að vinna, býst ég við,“ sagði Deignan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert