Innlent

Hópsmit á Landakoti

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hópsmit hefur komið upp á Landakotsspítala.
Hópsmit hefur komið upp á Landakotsspítala. Vísir/Vilhelm

Hópsmit er komið upp á Landakoti og hafa nú alls sextán sjúklingar og sex starfsmenn greinst með veiruna. Landakoti hefur nú verið lokað.

Landakot hefur ekki verið rýmt en því hefur verið lokað vegna smitanna. Framkvæmdastjóri á meðferðarsviði Landspítala segir stöðuna litna alvarlegum augum.

„Eins og staðan er núna þá hafa greinst sextán sjúklingar jákvæðir og sex starfsmenn og það eru komnir 98 í sóttkví út frá þessari útsetningu þannig að við eigum allt eins von á að það muni einhverjir bætast við,“ sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri á meðferðarsviði Landspítala, í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú fyrir skömmu.

Hún segir að um hópsmit sé að ræða.

„Við tökum þessa stöðu mjög alvarlega og það er verið að skima alla núna og rekja smitið til þess að ákveða næstu skref. Það er búið að loka Landakoti, ekki búið að rýma heldur loka og við erum að taka stöðuna núna,“ segir Guðlaug.

Búið er að loka þeim deildum þar sem smitin hafa komið upp og þegar hafa þrír sjúklingar verið fluttir í Fossvog sem að sögn Guðlaugar „ástandsins vegna þurfti að flytja.“

Hún segist ekki geta sagt til um hvort einhver sé alvarlega veikur en ástæða hafi verið fyrir því að flytja sjúklingana þrjá í Fossvog.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×