Augnatillit sjúklinganna skelfilegt

Skortur er á súrefni fyrir Covid-19-sjúklinga á Indlandi.
Skortur er á súrefni fyrir Covid-19-sjúklinga á Indlandi. AFP

„Þeir lágu þarna og horfðu á aðra sjúklinga berjast við að ná andanum og vissu að við værum ekki að gefa súrefni vegna þess að það var ekki í boði. Augnatillit þeirra var hreint út sagt skelfilegt. Þeir vissu að það gæti komið að þeim næst,“ segir Chahat Verma, indverskur læknir sem starfar á Ganga Ram-sjúkrahúsinu í Delí. 

Guardian ræddi við Vermu.

Verma segir það mjög átakanlegt fyrir sjúklinga að þurfa að horfa upp á aðra sjúkinga deyja. Sérstaklega ef tengsl hefðu myndast á milli sjúklinganna. 

Þá segir Verma að sjúkdómurinn virðist haga sér öðruvísi nú en í fyrra. 

„Ungir sjúklingar eru í fullkomlega stöðugu ástandi en svo hrynur súrefnismagn þeirra skyndilega,“ segir Verma.

Einbeitir sér að því að hjálpa þeim sem mögulegt er að hjálpa

Þá er það sem helst er frábrugðið tímabilunum tveimur það að læknar hafa ekki getað gefið sjúklingum súrefni sem gæti bjargað þeim í þessari bylgju faraldursins.

„Þetta var mjög dapurlegt. Ég sá þá verða syfjaða og bregðast ekki við því þegar hjartað og heilinn fundu fyrir áhrifum súrefnisskortsins. Sérhvert líffæri líkamans þarf súrefni. Áhrifin sem það hefur á líkamann eru hræðileg,“ segir Verma.

Á einum skelfilegum degi sá hún fimm sjúklinga deyja. Hún reyndi að endurlífga þá en það var til einskis. Hún fann fyrir reiði eitt augnablik en bældi hana niður. 

„Faðir minn er herforingi og hann kenndi mér snemma að reiðin væri ekki góð nema þú skipuleggir hana. Ég þurfi bara að einbeita mér að því að hjálpa þeim sem ég gæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert