Frábær skemmtun og auðvelt að byrja að spila

Skjáskot úr leiknum Rocket League.
Skjáskot úr leiknum Rocket League. Skjáskot/Rocket League

Leikurinn Rocket League hefur notið mikilla vinsælda um allan heim undanfarið. Meistaramótaröð leiksins hefur aldrei verið stærri en nú, er verðlaunafé nær nýjum hæðum og keppt er á fleiri svæðum en áður.

Rocket League er frír til spilunar á leikjaveitu Epic Games og má nálgast hann hér. Hægt er að spila leikinn á PC-tölvum ásamt öllum helstu leikjatölvum. Margir bílar eru í boði í leiknum og geta leikmenn hannað útlit bíla sinna.

Margir viðburðir eru haldnir á alþjóðlegum grundvelli í Rocket League, ásamt því að keppt er í leiknum hér á landi. En hvers vegna er áhugavert að horfa á og spila Rocket League?

Einfaldar og auðskiljanlegar reglur

Rocket League er ólíkur öðrum leikjum að því leiti að leikurinn skýrir sig sjálfur og gerir það áhorf og spilun aðvelda. Leikurinn er svokallaður bílabolti, þar sem leikmenn stýra bílum og reyna að koma boltanum í net mótherja. 

Leikurinn líkist venjulegum fótbolta sem flestir þekkja og gerir það áhorfendum auðvelt með að fylgjast með gangi leikja, en leikir eru stuttir og úrslit ákvarðast af markatölu líkt og í fótbolta. Það eru þó engin víti, rangstöður eða brot í leiknum eins og í venjulegum fótbolta. Reglurnar eru því einfaldar og getur hver sem er spilað og horft á leikinn og haft gaman af. 

Glæsileiki og miklir hæfileikar

Það getur verið erfitt og mikil vinna að verða góður í leiknum, þrátt fyrir að auðvelt sé að læra leikinn eru margir hæfileikar sem hægt er að læra og margar fínhreyfingar sem skipta máli. Líkt og í venjulegum fótbolta skipta staðsetningar líka miklu máli. 

Með því að fylgjast með leikjum hjá færum spilurum má því búast við miklum glæsileika og flottum tilþrifum, sem skapar stemningu og skemmtun fyrir áhorfendur.

Þekkt lið taka þátt

Mörg fræg íþrótta- og rafíþróttalið víðsvegar í heiminum keppa í Rocket League. Það eru því líkur á að þú getir fundið þér lið sem þú þekkir til að styðja. 

Frægu fótboltaliðin FC Barcelona, AS Monaco, PSG, Villareal CF og Valencia CF tefla öll fram liðum í Rocket League eða hafa gert það. 

Rafíþróttafélögin Team BDS, Team Vitality, Dignitas, Evil Geniuses, Team Liquid, FaZe Clan, G2 Esports, NAVI, FURIA Esports ásamt fjölmörgum öðrum rafíþróttafélögum tefla einnig fram liðum í Rocket League og ætti ekki að vera erfitt að finna lið við sitt hæfi til að styðja.

Á Íslandi eru einnig íþróttafélög sem tefla fram liði og fer þeim fjölgandi með hverju tímabili sem líður. Nú keppa íþróttaliðin Þór Akureyri, KR, Selfoss og Keflavík í deildum í Rocket League á Íslandi.

Margir viðburðir

Meistaramótaröðin í Rocket League, eða RLCS, inniheldur marga viðburði á mismunandi svæðum í heiminum. Undankeppnir og svæðamót eru haldin innan svæða og í kjölfarið stærri meistaramót þar sem bestu lið svæðanna keppast um titla og verðlaun. 

Heildarverðlaunafé meistaramótaraðarinnar í Rocket League er 781 milljónir íslenskra króna, en hefur verðlaunaféið aldrei verið jafn mikið og nú. Hægt er að fylgjast með öllum stærri viðburðurm meistaramótaraðar Rocket League á Twitch rás Rocket League

Ef þú spilar Rocket League getur þú tengt Rocket League aðganginn þinn við Twitch aðganginn þinn og horft á útsendingar í Rocket League til að eiga möguleika á að fá gefins hluti innan leiksins. 

Keppt er í Rocket League á Íslandi, en nú er þriðja tímabil Rocket League Ísland í gangi og er spilað í þremur deildum. Margir viðburðir fyrir almenna spilara eru haldnir á sumrin. Næsta tímabil Rocket League Ísland hefst í byrjun næsta árs og geta öll lið skráð sig til leiks og tekið þátt.

Rocket League á Íslandi

Hafir þú áhuga á að prófa Rocket League, eða spilir leikinn nú þegar og vilt taka þátt í íslensku samfélagi leiksins getur þú skráð þig á Discord rás RLÍS eða sótt um aðgang í Facebook hóp RLÍS.

Streymt er frá leikjum íslenskra liða í Rocket League þrisvar í viku. Úrvalsdeildin, eða Turf Deildin, er spiluð á sunnudags- og þriðjudagskvöldum og er sýnd í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð 2 esport. Fyrsta deild RLÍS er í beinni útsendingu öll fimmtudagskvöld á Twitch rás RLÍS.

Rocket League er frábær skemmtun sem hentar einstaklingum á öllum aldri og er leikurinn auðskiljanlegur og því auðveldur í áhorfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert