Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,6% í 9,2 milljarða króna veltu í dag. Hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni – Arion, Kviku og Íslandsbanka – hækkuðu um 2,6%-5,7% í viðskiptum dagsins. Markaðsvirði þeirra jókst um samtals 18 milljarða króna.

Hækkun bankanna má rekja til þess að tilkynnt var eftir lokun markaða í gær um að stjórn Kviku hefði óskað eftir samrunaviðræðum við stjórn Íslandsbanka í gær.

Kvika leiddi hækkanir í dag en gengi bankans hækkaði um 5,7% í 1,6 milljarða veltu og stendur nú í 19,65 krónum. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 2,6% í 755 milljóna viðskiptum og stendur nú í 120 krónum. Mesta veltan í Kauphöllinni var með bréf Arion banka sem hækkuðu um 3%. Gengi Arion stendur nú í 155 krónum.

Banki Hækkun í dag Br. á markaðsvirði Markaðsvirði
Arion +2,99% 6,80 ma.kr. 234,05 ma.kr.
Kvika +5,65% 5,18 ma.kr. 96,85 ma.kr.
Íslandsbanki +2,56% 6,00 ma.kr. 240,00 ma.kr.

Icelandair hækkar um 1,5% eftir uppgjörið

Næst mesta veltan á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar var með hlutabréf Icelandair. Gengi flugfélagsins hækkaði um 1,5% og stendur nú í 2,1 krónu á hlut. Það var síðast hærra í lok febrúar 2022.

Icelandair birti ársuppgjör í gærkvöldi en flugfélagið tapaði tæplega 818 milljónum á síðasta ári. Afkoma félagsins hefur hins vegar ekki verið betri frá árinu 2017 þegar það skilaði síðasta hagnaði. Þá hefur afkoma flugfélagsins á fjórða ársfjórðungi ekki verið betri frá árinu 2015.

Brim og Síldarvinnslan lækka

Fimm félög aðalmarkaðarins lækkuðu í viðskiptum dagsins. Þar af lækkaði hlutabréfaverð útgerðarfélaganna Brim og Síldarvinnslunnar mest. Gengi Brims lækkaði um 3,2% og stendur nú í 90 krónum. Hlutabréfaverð SVN féll um 1,6% og er nú í 122,5 krónum.

Hafrannsóknastofnun birti í dag loðnuráðgjöf fyrir vertíðina 2022/23. Stofnunin leggur til að loðnuafli á vertíðinni verði ekki meiri en 275.705 tonn, sem samsvarar 57.000 tonna hækkun ráðgjafar frá þeirri sem gefin var út 4. október 2022.