Tæknifrumkvöðlar kynna í Hörpu

Konurnar hafa hlotið leiðsögn og ráðgjöf frá þekktum einstaklingum innan …
Konurnar hafa hlotið leiðsögn og ráðgjöf frá þekktum einstaklingum innan tæknisamfélagsins. Ljósmynd/Aðsend

Eina milljón króna hljóta þeir kvenfrumkvöðlar sem bera sigur úr býtum eftir viðskiptahraðalinn Women Innovators Incubator.

Kynning á hugmyndunum verður haldin í Hörpu þann 24. maí frá 17:00 til 19:30. Þá verður valinn sigurvegari, en auk þess verða veitt sérstök áhorfendaverðlaun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Huawei. 

Um er að ræða samvinnuverkefni WomenTechIceland og Huawei. Hraðlinum var ætlað að styðja konur í því að ná frekari fótfestu í heimi tækninnar og að þróa hugmyndir sínar áfram.

Sautján teymi kvenfrumkvöðla tóku þátt í viðskiptahraðlinum. Sumar þeirra eru reyndir frumkvöðlar á meðan aðrar hafa ekki litið á sig sem frumkvöðla fyrr en nú. 

Virkja konur í tækniheiminum

„Markmið okkar er að hvetja konur til að vera virkir þátttakendur í tækniheiminum og styrkja þær til að nota tækni sem verkfæri til jákvæðra breytinga. Það gleður okkur mjög að með þessu náum við að sýna fram á hversu margar konur með frábærar hugmyndir eru að störfum í tæknisamfélaginu. Stundum þarf bara rétta stuðningskerfið til að koma verkefnum af stað með skipulegum hætti,“ segir Paula Gould, meðstofnandi WomenTechIceland, í tilkynningunni.

Frumkvöðlarnir hafa hlotið bæði leiðsögn og ráðgjöf frá þekktum einstaklingum innan tæknisamfélagsins.

Kynningin markar lok hraðalsins, sem hófst 26. apríl og hefur staðið yfir nokkrar helgar með hóptímum og vinnustofum í húsnæði Öskju í Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert