Morata sá um Dynamo Kiev - dramatík í Rússlandi

Álvaro Morata fagnar ásamt liðsfélögum sínum í Úkraínu í kvöld.
Álvaro Morata fagnar ásamt liðsfélögum sínum í Úkraínu í kvöld. AFP

Álvaro Morata skoraði bæði mörk Juventus þegar liðið vann 2:0-sigur gegn Dynamo Kiev í Úkraínu í G-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var markalaus en í upphafi síðari hálfleiks kom Morata Juventus yfir eftir að hann fylgdi eftir skoti Dejan Kulusevski.

Morata bætti svo öðru marki við á 84. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Juan Cuadrado í netið af stuttu færi úr teignum og þar við sat.

Juventus er með 3 stig í efsta slti G-riðils á meðan Dynamo Kyiv er án stiga en Barcelona og Ferencváros mætast klukkan 19 í hinum leik riðilsins.

Það var mikið fagnað í uppbótartíma í Rússlandi í kvöld.
Það var mikið fagnað í uppbótartíma í Rússlandi í kvöld. AFP

Sigurmark í uppbótartíma

Þá reyndist Charles De Ketelaere hetja Club Brugge í F-riðli keppninnar þegar liðið sótti Zenit frá Pétursborg heim í Rússlandi.

Emmanuel Dennis kom Club Brugge yfir á 63. mínútu áður en Ethan Horvath varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 74. mínútu.

Ketelaere skoraði svo sigurmark leiksins í uppbótartíma og Belgarnir fögnuðu dýrmætum 2:1-sigri.

Club Brugge fer í efsta sæti riðilsins en Lazio og Borussia Dortmund mætast klukkan 19 á Ítalíu í hinum leik F-riðils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert