Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að halda sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki óbreyttum næstu sex mánuði við núll prósent. Sveiflujöfnunaraukanum var aflétt 18. mars síðastliðinn. Frá þessu er greint á vef Seðlabanka Íslands.

Sjá einnig: 8,9% fyrirtækjalána í vanskilum

Þar kemur einnig fram að „lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir fyrir starfsemi lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Lífeyrissjóðir eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og því er þörf á að skoða frekar umgjörð og áhættu tengda þeim.“

Segir að „baráttan við farsóttina er langdregnari en vonir voru bundnar við sem eykur óvissu og hefur neikvæð áhrif á útlánasöfn fjármálafyrirtækja.“ Því sé mikilvægt að „fjármálafyrirtæki vinni markvisst að endurskipulagningu útlána og nýti það svigrúm sem aðgerðir Seðlabankans og stjórnvalda hafa skapað til að styðja við heimili og fyrirtæki.“

Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sögð sterk þar sem þeir hafa greiðan aðgang að lausu fé, bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum.

Stýrivextir Seðlabankans eru nú í einu prósentustigi. Það sem af er ári hafa þeir lækkað um tvö prósentustig en næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar er 7. október.

„Nefndin ítrekar að hún er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi,“ kemur fram í lok yfirlýsingarinnar.