Stóru kláru kallarnir sem vita allt best

Pep Guardiola hefur áður kvartað yfir leikjaálaginu á Englandi.
Pep Guardiola hefur áður kvartað yfir leikjaálaginu á Englandi. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, skaut föstum skotum að forráðamönnum ensku úrvalsdeildarinnar sem og forráðamönnum enska knattspyrnusambandsins á blaðamannafundi á þriðjudaginn.

City vann öruggan 6:1-sigur gegn Wycombe Wanderers í 3. umferð enska deildabikarsins en Guardiola gagnrýndi harðlega þá ákvörðun  að leyfa einungis þrjár skiptingar í bæði bikar- og deildarleikjum á Englandi.

„Ég er ekki hérna til þess að breyta landinu en það er gjörsamlega fáránlegt að það séu bara leyfðar þrjár skiptingar hérna á meðan það eru leyfðar fimm skiptingar allsstaðar annarsstaðar í heiminum,“ sagði Guardiola pirraður.

„Við erum að spila leiki á nánast þriggja daga fresti og álagið er gríðarlegt. Það er ekkert skrítið að leikmenn eigi í vandræðum með að klára heilt tímabil því álagið gerir það að verkum að þú meiðist alltaf á einhverjum tímapunkti.

Ég veit ekki af hverju þetta er svona, vonandi, einn daginn, geta stóru kláru kallarnir sem vita allt best útskýrt það fyrir mér af hverju þetta þarf að vera svona,“ bætti Guardiola við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert