Arsenal með átta stiga forskot

Bukayo Saka fagnar fyrra marki sínu í dag.
Bukayo Saka fagnar fyrra marki sínu í dag. AFP/Justin Tallis

Arsenal styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með því að hafa örugglega betur gegn Crystal Palace, 4:1, á Emirates-vellinum í Lundúnum í dag. Skytturnar eru nú með átta stiga forskot á toppnum.

Eftir rólega byrjun hófu gestirnir í Palace að gera sig líklega.

Á elleftu mínútu kom fyrsta skot leiksins. Það átti Wilfried Zaha eftir að hafa farið illa með Ben White. Skotið hafnaði í stönginni og fór þaðan af kálfanum á Aaron Ramsdale og aftur fyrir, sem var nálægt því að vera sjálfsmark.

Fimm mínútum síðar slapp Odsonne Édouard einn í gegn, reyndi skot innan vítateigs en það var of nálægt Ramsdale sem gerði þó afar vel með því að vera snöggur niður og verja til hliðar.

Á 18. mínútu kom loks fyrsta skot Arsenal þegar Martin Ödegaard fyrirliði átti fína tilraun úr D-boganum en Joe Whitworth í marki Palace varði til hliðar.

Tíu mínútum síðar náði Arsenal forystunni. Bukayo Saka gaf þá fyrir frá hægri á Gabriel Martinelli, hann tók vel við boltanum, fór auðveldlega fram hjá Joel Ward og skoraði með hnitmiðuðu vinstri fótar skoti í fjærhornið.

Skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði Saka forystuna. Ben White renndi boltanum þá inn fyrir á kantmanninn knáa, hann tók eina snertingu og lagði boltann af stuttu færi í netið.

Staðan var því 2:0 þegar flautað var til leikhlés.

Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik kom svo þriðja mark Arsenal.

Oleksandr Zinchenko fann þá Granit Xhaka á milli línanna, hann kom boltanum út á Leandro Trossard, sem lagði hann aftur inn fyrir á Xhaka, sem tókst að tækla boltann í nærhornið undir pressu frá Joel Ward.

Ekki leið þó á löngu þar til Palace minnkaði muninn í 3:1. Jeffrey Schlupp skoraði með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu Michael Olise frá vinstri.

Rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok innsiglaði Saka sigurinn með fjórða marki Arsenal. Varamaðurinn Kieran Tierney lagði boltann þá út á Saka sem skoraði með viðstöðulausu skoti í nærhornið utarlega úr vítateignum.

Arsenal er nú með 69 stig, átta stigum meira en ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City í öðru sæti, sem eiga leik til góða.

Palace heldur kyrru fyrir í tólfta sæti með 27 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Joel Ward og Gabriel Martinelli eigast við í leiknum í …
Joel Ward og Gabriel Martinelli eigast við í leiknum í dag. AFP
Arsenal 4:1 Crystal Palace opna loka
90. mín. Að minnsta kosti fjórum mínútum verður bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert