Stórkostlegt kvöld

Mikel Arteta fagnar með tilþrifum í leikslok.
Mikel Arteta fagnar með tilþrifum í leikslok. AFP/Glyn Kirk

„Miklar tilfinningar - mikil gæði. Það verður ekki betra en þetta. Að spila svona í kjölfar nágrannaslagsins gegn Tottenham og gegn þessu liði er magnað. Seinni hálfleikur var sérstaklega frábær og að vinna með þessum hætti er enn betra,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal, að loknum leik liðsins gegn Manchester United á Emirates-leikvanginum í gær í frábærum fótboltaleik.

United komst yfir en Arsenal jafnaði og komst yfir áður en United jafnaði. Það var svo Eddie Nketiah sem skoraði sigurmark heimamanna undir lok leiks í frábærum sigri, 3:2.

„Við sýndum yfirvegun og vorum ákveðnir á sama tíma. Við héldum trúnni og spiluðum okkar leik. Við vissum að við gætum unnið leikinn. Það er erfitt að spila gegn United, sérstaklega þegar þú lendir undir. Ef þú nýtir ekki sénsana þína geta þeir refsað grimmilega.

Við höfum spilað vel og eigum skilið að vera í þessari stöðu. það er erfitt að vinna leiki í þessari deild og allir leikir eru áskorun. Við vitum það og búum okkur undir það daglega. Þetta var stórkostlegt kvöld með okkar stórkostlegu stuðningsmönnum. Við erum ánægðir að hafa getað sent þá glaða heim til sín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert